Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, undirritaði í gær í Árnesi friðlýsingu hluta Þjórsárdals sem landslagsverndarsvæðis. Innan svæðisins eru þrjú svæði sem eru friðlýst sem náttúruvætti, Gjáin, Háifoss og Granni og Hjálparfoss. Er þetta fyrsta friðlýsing svæðis í friðlýsingarflokkinum landslagsverndarsvæði. Jafnframt liggja nú fyrir tillögur að verndun Geysissvæðisins sem náttúruvættis.
Látinn er í hárri elli Símon Oddgeirsson frá Dalsseli, Vestur-Eyjafjöllum, einn af velgjörðarmönnum skógræktar á Íslandi. Símon gaf Skógræktinni 68 hektara skógræktargirðingu sem hann hafði grætt upp og ræktað með skógi. Þar heitir nú Símonarskógur og verður varðveittur og ræktaður áfram og opinn almenningi.
Helsingjaborg í Svíþjóð er fyrst norrænna borga til að taka þátt í átaki Sameinuðu þjóðanna sem nefnist á ensku Trees in Cities Challenge sem gæti útlagst sem borgartrjáaáskorunin á íslensku. Átakinu var hleypt af stokkunum á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna á Spáni í haust sem leið. Þar voru borgarstjórar um allan heim hvattir til þess að gefa fyrirheit um gróðursetningu tiltekins fjölda trjáa.
Framleiða mætti lífkol úr hvers kyns lífrænu efni sem til fellur hérlendis, til dæmis afskurði og ónýtanlegum grisjunarviði. Lífkol geta bætt jarðveg og dregið úr næringarefnatapi. Og með því að kola lífrænt efni binst kolefnið í aldir og jafnvel árþúsund. Lífkolagerð getur því bæði stuðlað að aukinni frjósemi jarðvegs á Íslandi, aukið árangur í skógrækt, landgræðslu og almennri ræktun og stækkað kolefnisforðabúr landsins.
Ellert Arnar Marísson, skógræktarráðgjafi hjá Skógræktinni, ver meistararitgerð sína í skógfræði við náttúru- og skógardeild Landbúnaðarháskóla Íslands miðvikudaginn 29. janúar. Titill ritgerðarinnar er „Viðarmagnsspá fyrir Vesturland“.