Sjálfboðaliðar sem starfa á Þórsmörk á komandi sumri munu jafnframt gróðursetja tíu þúsund trjáplöntur í þjóðskógunum og taka þannig þátt í átaki til kolefnisbindingar með skógrækt á Íslandi. Umsóknarfrestur fyrir fólk sem vill gerast sjálfboðaliðar á Þórsmörk er til 31. janúar.
Árið sem nú er nýhafið er alþjóðlegt ár plöntuheilsu hjá FAO, matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna. Á elleftu stundu vill stofnunin freista þess að vekja athygli heimsbyggðarinnar á því hversu mikilvægur gróður jarðar er fyrir tilveru fólks á jörðinni. Stofnunin varar við hættunni af flutningi plantna og plöntuafurða milli landa og skorar á yfirvöld í löndum heims að efla fræðslu um plöntuheilsu og mikilvægi plantna fyrir mannkynið.