Árið sem nú er nýhafið er alþjóðlegt ár plöntuheilsu hjá FAO, matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna. Á elleftu stundu vill stofnunin freista þess að vekja athygli heimsbyggðarinnar á því hversu mikilvægur gróður jarðar er fyrir tilveru fólks á jörðinni. Stofnunin varar við hættunni af flutningi plantna og plöntuafurða milli landa og skorar á yfirvöld í löndum heims að efla fræðslu um plöntuheilsu og mikilvægi plantna fyrir mannkynið.

Á vef FAO er greint frá því að aukin meðvitund jarðarbúa fyrir plöntuheilbrigði sé meginatriði til að draga úr hungri og fátækt í heiminum, vernda umhverfi og náttúru og efla hag fólks um allan heim.

FAO sendi frá sér yfirlýsingu þegar tilkynnt var um útnefningu ársins 2020 sem alþjóðlegs árs plöntuheilsu. Þar er bent á þá sérkennilegu staðreynd að jafnvel þótt mannkynið treysti á súrefnið sem plöntur færa okkur með ljósttillífun og allan fæðuforðann sem kemur úr plönturíkinu höfum við allt of lítið hugað að heilbrigði gróðursins á jörðinni.

Í myndbandi frá FAO eru markmið ársins kynnt og mikilvægi þess að mannkynið hugi að plöntuheilsu.

Vaxandi hætta steðjar að plöntuheilsu

Og vaxandi ógnir steðja að gróðri jarðar segir í yfirlýsingunni. Heilsufar plantna sé í vaxandi hættu. Með loftslagsbreytingum og ýmsum athöfnum manna hafi vistkerfi breyst, líffjölbreytni minnkað og skilyrði skapast fyrir skaðvalda og sjúkdóma til að breiðast út. FAO áætlar að plöntusjúkdómar og meindýr dragi úr uppskeru nytjaplantna í heiminum um 40 prósent. Það eykur hættuna á matarskorti í fátækustu löndum heims þar sem hungrið vofir yfir milljónum manna. Augljóst er líka tekjutapið hjá ræktendum og matvælaframleiðendum.

Eins og víða annars staðar er betra í þessum efnum að byrgja brunninn áður en barnið dettur ofan í hann. Mun erfiðara er að ráða við vandann þegar í óefni er komið. FAO mælir því með því að ráðist verði í fyrirbyggjandi aðgerðir til að draga úr því tjóni sem plöntusjúkdómar og meindýr valda á matarbúri jarðarbúa. Illmögulegt geti orðið að losna við plöntusjúkdóma eða skaðvalda í ræktun þegar þeir hafi náð að breiðast út.

Fimm heilræði

Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna setur fram fimm heilræði sem meginskilaboð sín til mannkynsins á alþjóðlegu ári plöntuheilsu. Biðlað er til allra jarðarbúa enda geti allir lagt sitt af mörkum til að stuðla að bættri plöntuheilsu í heiminum.

  1. Varist hættur sem fylgt geta flutningi plantna og plöntuafurða milli landa
  2. Tryggið örugga verslun með plöntur og plöntuafurðir með því að fara að alþjóðlegum viðmiðum um plöntuheilsu
  3. Notið umhverfisvænar aðferðir til að tryggja heilbrigði nytjaplantna
  4. Fjárfestið í baráttu, rannsóknum, þróun og þekkingarmiðlun á sviði plöntuheilsu
  5. Eflið vöktunar- og viðvörunarkerfi til varnar plöntum og plöntuheilsu

Notum aðferðir náttúrunnar

Geitungar halda óværu á trjám, runnum og öðrum gróðri niðri. Beita má slíkum vörnum í staðinn fyrir eitur til dæmis. Ljósmynd: Brynja HrafnkelsdóttirVel er hægt að vinna gegn skaðvöldum og plöntusjúkdómum án þess að nota aðferðir sem menga umhverfið eða spilla náttúrunni. Til dæmis má beita aðferðum þess sem kallað er samþættar varnir gegn skaðvöldum eða „integrated pest management“ á ensku (IPM). Það felst í stórum dráttum í því að nota aðferðir náttúrunnar sjálfrar, til dæmis lífrænar varnir í garðyrkju svo sem skordýr sem lifa á meindýrum. Markmiðið er þá ekki að útrýma skaðvöldum eða útiloka sjúkdóma heldur að halda þeim undir þeim mörkum að ræktunin beri sig. Hugað er að forvörnum eins og að nota besta fáanlegan efnivið sem hefur mótstöðu gegn óværunni og vakta skaðvalda og sjúkdóma. Fyrstu viðbrögð eru ekki að eitra heldur að beita handvirkum aðferðum, tína óværuna af, sprauta með vatni, skola með sápuvatni og þess háttar, beita lífrænum vörnum í lengstu lög, áður en gripið er til eiturs. Eitri sé aðeins beitt í neyð og þá með þeim aðferðum sem bera mestan árangur með sem minnstri efnanotkun.

Framlag hvers og eins mikilvægt

Hvert og eitt okkar getur hugað að plöntuheilsu í lífi og starfi. Nú er jólahátíðin brátt að baki og í því sambandi er vert að benda á hættuna sem stafar af innflutningi jólatrjáa. Íslendingar ættu að stefna að því að hætta innflutningi jólatrjáa og rækta öll jólatré innanlands. Jafnframt þyrfti að huga betur að innflutningi lifandi plantna á rót og ef til vill hætta honum með öllu en efla í staðinn innlenda garðyrkju og gróðrarstöðvar. Plöntusjúkdómar geta hæglega borist til Íslands með innflutningi og valdið gríðarlegu tjóni, til dæmis í skógrækt.

Í yfirlýsingu FAO er skorað á yfirvöld í löndum heims að efla fræðslu um plöntuheilsu og ekki síður að fræða almenning um mikilvægi plantna fyrir alla menn.

Fjölmargir viðburðir

Ýmsir viðburðir verða haldnir vítt og breitt um heiminn í tilefni af alþjóðlegu ári plöntuheilsu. Eitt af því sem FAO hefur þegar efnt til er ljósmyndasamkeppni sem er fyrir jafnt áhugaljósmyndara og atvinnuljósmyndara. Þar er óskað eftir ljósmyndum sem sýna heilbrigðar og sýktar plöntur. Takið þátt í keppninni hér. Fólk um allan heim er jafnframt hvatt til að efna til hvers kyns viðburða sem tengjast plöntuheilsu. Einnig er bent á sérstakt söguskapalón FAO sem nota má til að senda sögur til birtingar á vef stofnunarinnar. Bent er sömuleiðis á að FAO geti útvegað ýmiss konar kynningarefni á mörgum tungumálum. Stofnunin hvetur til þess að börn og ungmenni verði virkjuð til aðgerða og baráttu og einnig að fjölmiðlafólk verði virkjað til að fjalla um málefni sem snerta plöntuheilsu.

#ZeroHunger #SDGs #Agenda2030

Texti: Pétur Halldórsson