Esther Ösp Gunnarsdóttir lét um mánaðamótin af störfum kynningarstjóra hjá Skógrækt ríkisins eftir ríflega átta ára starf hjá stofnuninni. Henni eru þökkuð vel unnin störf og óskað velfarnaðar í nýjum störfum. Esther starfar nú hjá eigin hönnunar og ráðgjafarfyrirtæki, Gjallarhorn, á Reyðarfirði.
Í dag er fyrsti starfsdagur nýrrar skógræktarstofnunar, Skógræktarinnar, sem til varð við sameiningu Skógræktar ríkisins og landshlutaverkefnanna í skógrækt. Ástæða er til að óska þjóðinni til hamingju með daginn. Um sjötíu manns komu til skógargöngu á Silfrastöðum í Skagafirði í gærkvöld, fyrstu gönguna af sex sem haldnar eru til að fagna þessum nýja áfanga. Hinar göngurnar verða í dag á fyrsta starfsdegi Skógræktarinnar.
Í tilefni af því að föstudaginn 1. júlí hefur ný stofnun, Skógræktin, formlega starfsemi sína verður gengið í skóg á sex stöðum á landinu. Fyrsta gangan verður í kvöld, fimmtudagskvöld, í Silfrastaðaskógi í Skagafirði en á morgun föstudag verður gengið í skóginum við Rannsóknastöð skógræktar, Mógilsá, á Galtalæk í Biskupstungum, Oddstöðum í Lundarreykjadal Borgarfirði, Innri-Hjarðardal Önundarfirði, og Strönd á Völlum Fljótsdalshéraði.
Ólafur Árni Mikaelsson hreppti Íslandsmeistaratitilinn í skógarhöggi á Skógardeginum mikla sem fram fór á Hallormsstað á laugardaginn var í blíðskaparveðri og hita. Í öðru sæti lenti Bjarki Sigurðsson og Kristján Már Magnússon í því þriðja. Í skógarhlaupinu kom Hjalti Þórhallsson fyrstur í mark í karlaflokki og Meredith Cricco í kvennaflokki.
Mikið fjölmenni var á Hallormsstað í gær, laugardag, þar sem heimafólk á Austurlandi og gestir þeirra tóku þátt í skógardeginum mikla í yfir 20 stiga hita. Meðal þeirra sem komu fram á hátíðinni var norski keðjusagarlistamaðurinn Arne Askeland sem kvað geta sagað hvað sem er út með keðjusögini. Í frétt Sjónvarpsins af viðburðinum kom fram að Arne laumaðist líka til að saga út brjóstmynd af þeim forsetaframbjóðanda sem stóð uppi sem sigurvegari í kosningunum í gær.