Skógardagurinn mikli fór fram í sól og hita á Hallormsstað

Mikið fjölmenni var á Hallormsstað í gær, laugardag, þar sem heimafólk á Austurlandi og gestir þeirra tóku þátt í skógardeginum mikla í yfir 20 stiga hita. Meðal þeirra sem komu fram á hátíðinni var norski keðjusagarlistamaðurinn Arne Askeland sem kvað geta sagað hvað sem er út með keðjusögini. Í frétt Sjónvarpsins af viðburðinum kom fram að Arne laumaðist líka til að saga út brjóstmynd af þeim forsetaframbjóðanda sem stóð uppi sem sigurvegari í kosningunum í gær.

Í frétt Sjónvarpsins segir enn fremur:

Upp úr hádegi lá stríður straumur bíla inn í Hallormsstað og margir virðast hafa kosið snemma til að geta notið dagisins í blíðunni í trjásafninu. Þetta er í ellefta sinn sem skógarbændur og fleiri bjóða til skógardags en nú bar hann upp á kjördag. „Ég hugsa að fólk hafi bara kosið snemma og  svo er náttúrleg hægt að kjós seinni partinn í dag og í kvöld þannig að menn bara notuðu daginn í dag á skógardegi, kjósa á undan eða á eftir. Og núna eru hérna á bilinu 1500-2000 manns, nær 2000 manns hugsa ég. Allsstaðar að af svæðinu,“ segir Þór Þorfinnsson, skógarvörður á Austurlandi.

Á skógardeginum grilla skógarbændur heilt naut ofan í gesti og sjá til þess að allir fái í svanginn. Þá er ketilkaffi soðið; drykkur skógarhöggsmanna og lummur bakaðar yfir eldi allt eftir kústarinnar reglum. Keppt er í skógarhöggi og í ár var norski keðjusagarlistamaðurinn Arne Askeland fenginn til landsins. Hann hefur náð svo mikilli færni í útskurði að hann hefur unnið fyrir sér með söginni síðustu sex árin. Á Skógardeginum byrjaði hann eins og alltaf með ósköp venjulegan drumb. „Já þetta er mjög skemmtilegt að kynnast þessu og sjá þann norska bæði halda námskeið og sýna listir sína hann sagaði hérna víking í dag úr alaskaösp sem honum þykir mjög gott að nota hún er mjúk og fín að nota í svona listgripi,“ segir Þór.

Fjarri mannfjöldanum á skógardeginum; inni á verkstæði skógræktarinnar hefur Arne dundað sér við lítið aukaverkefni. Það er ekki á hverjum degi sem maður er á Íslandi sama dag og nýr forseti er kosinn. „Já norðmaðurinn tók eftir því og ákvað að reyna sig við þann sem að efstur er í skoðanakönnunum, Guðna Th. Jóhannesson. Svo á náttúrulega eftir að koma í ljós hvernig það fer hvort að það verður þessi stytta af honum á Bessastöðum eða ekki. Hann náði honum í morgun. Þá náði hann svipnum bæði framan og aftan. Ég held að hann sé alveg kominn með þetta,“ sagði Þór í gær.

"> Meistarinn Arne Aspeland mótar andlit í trjádrumb í sumarsólinni">