Skógarbændurnir á Silfrastöðum, Hrefna Jóhannesdóttir og Johan Holst, fengu þessar forláta svuntur frá Félagi skógarbænda á Norðurlandi í þakklætisskyni fyrir skógargönguna. Silfrastaðir í baksýn og Mælifellshnjúkur. Mynd: Pétur Halldórsson.
Um sjötíu manns sóttu skógargöngu í gærkvöldi í blíðuveðri
Í dag er fyrsti starfsdagur nýrrar skógræktarstofnunar, Skógræktarinnar, sem til varð við sameiningu Skógræktar ríkisins og landshlutaverkefnanna í skógrækt. Ástæða er til að óska þjóðinni til hamingju með daginn. Um sjötíu manns komu til skógargöngu á Silfrastöðum í Skagafirði í gærkvöld, fyrstu gönguna af sex sem haldnar eru til að fagna þessum nýja áfanga. Hinar göngurnar verða í dag á fyrsta starfsdegi Skógræktarinnar.
Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, tók þátt í skógargöngunni á Silfrastöðum og flutti stutt ávarp. Hún talaði um hve undirbúningur hinnar nýju stofnunar hefði gengið vel og hældi Þresti Eysteinssyni skógræktarstjóra sérstaklega fyrir þá góðu samræðu sem hefði verið meðal starfsfólksins. Hún hældi líka skógarbændunum á Silfrastöðum fyrir öflugt starf og gat þess meðal annars að hún hefði einhvers staðar lesið að skógurinn á Silfrastöðum myndi binda koltvísýring sem samsvaraði útblæstri um 15.000 bíla.
Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, tók þátt í göngunni og flutti stutt ávarp
Gestir í skógargöngunni snæddu súpu og fræddust um skógræktina á Silfrastöðum af hjónunum Hrefnu Jóhannesdóttur og Johan Holst sem hafa nú tekið við skógarbúskapnum af föður Hrefnu, Jóhannesi Jóhannssyni og konu hans, Þóru Jóhannesdóttur.
Hrefna sýndi líka hvernig girðingarstaurar eru búnir til í stauravél sem þau bændurnir á Silfrastöðum eiga ásamt Skógræktarfélagi Eyfirðinga og Johan lýsti því hve gott efni íslenska lerkið væri í girðingarstaura, ómengað með náttúrlegri fúavörn í kjarnaviðnum, sterkir staurar sem auðvelt væri að reka niður og tækju fram mörgu af því girðingarefni sem flutt væri inn til landsins fúavarið með mengandi efnum.
Síðan var gengið upp í skóginn á Silfrastöðum og skoðaðar gróðurstetningar síðustu áratuga. Mest hefur verið ræktað af lerki, byrjaði með þrjátíu hekturum á níunda áratug síðustu aldar en er nú komið í um 480 hektara og tæp 1,1 milljón plantna komin í jörð. Talsvert hefur verið gróðursett af birki líka, inn á milli stafafura og alaskaösp og á næringarríkustu stöðunum vex greni, bæði sitkabastarður og rauðgreni en það þrífst illa nema þar sem jarðvegur er sérlega góður eða í skjóli af eldri trjám.
Fram kom einnig hjá þeim Hrefnu og Johan að nú væri byrjað að taka efni úr skóginum með millibilsgrisjun og hafði Hrefna á orði að þau væru líklega einu bændurnir í Skagafirði sem keyptu hesta en ræktuðu girðingarstaura og gaf þannig í skyn að þar um slóðir væri þetta yfirleitt öfugt. Johan nefndi líka að með því að kynda hús sitt með eigin trjáviði gætu þau líklega sparað um hálfa milljón króna á ári í kyndikostnað enda engin hitaveita á staðnum og dýrt að hita með rafmagni.
Skógargangan endaði í fallegu dalverpi ofan bæjarins á Silfrastöðum þar sem yfir gnæfir fallegur klettastapi. Þarna hefur heimafólkið sitt eigið útivistarsvæði í skógi þar sem það kemur gjarnan til að njóta útiverunnar, hita ketilkaffi yfir eldi og fleira skemmtilegt. Ketilkaffi var einmitt í boði í skógargöngunni í gær og gómsætar kleinur í boði Félags skógarbænda á Norðurlandi og félagið færði þeim Hrefnu og Johan forláta svuntur með merki félagsins og starfsfólk Norðurlandsskóga fékk blóm frá félaginu fyrir mjög gott samstarf á liðnum árum með óskum um áframhald á því hjá nýrri stofnun.
Milt og fallegt veður var á Silfrastöðum í gærkvöld og vonandi viðrar vel á fólk í þeim skógargöngum sem fram fara í dag. Gengið verður á Mógilsá í Kollafirði í dag kl. 14 og á sama tíma verða skógargöngur á Galtalæk í Biskupstungum, Strönd á Völlum Fljótsdalshéraði og Oddsstöðum í Lundarreykjadal Borgarfiði. Klukkan 16 hefst svo ganga í Innri-Hjarðardal í Önundarfirði. Nánar um göngurnar hér.
Ávarp ráðherra
Starfsfólk Skógræktarinnar fagnar fyrsta degi nýrrar stofnunar með ýmsu öðru móti. Á starfstöðvunum er haft eitthvað betra með kaffinu eins og sést á myndunum hér fyrir neðan. Tertan sem pöntuð var á aðalskrifstofunni á Egilsstöðum var merkt „Skógræktarfélagið“ sem sýnir að fram undan er vinna við að treysta í minni fólks heitið Skógræktin svo að almenningur tengi það örugglega hinni nýju stofnun.
Starfsfólkið á aðalskrifstofu Skógræktarinnar fagnar fyrsta degi nýrrar stofnunar.
Vala Garðarsdóttir, Gunnlaugur Guðjónsson, Maria Danielsdóttir Vest, Ingibjörg Jónsdóttir,
Sherry Curl, Aðalheiður Bergfoss, Anna Pálína Jónsdóttir og Þröstur Eysteinsson
sem tók myndina.
Fjórir af starfsmönnum skrifstofu Skógræktarinnar á Akureyri, Bergsveinn Þórsson,
Hallgrímur Indriðason, Rakel Jónsdóttir og Pétur Halldórsson.