Ef framlag stjórnvalda og einstaklinga til landgræðslu og skógræktar yrði fjórfaldað frá því sem nú er væri hægt að binda samsvarandi magn koltvísýrings í andrúmsloftinu árið 2030 og gert er ráð fyrir að allar samgöngur og sjávarútvegur á Íslandi muni losa á þeim tíma. Þetta sagði Brynhildur Davíðsdóttir prófessor á ráðstefnu sem Landsbankinn hélt í gær um áhrif Parísarsamkomulagsins á atvinnulífið. Fjallað er um erindi Brynhildar í Fréttablaðinu í dag.
Landbúnaðarháskólinn hefur opnað fyrir umsóknir um nám á næsta skólaári. Að venju er boðið upp á nám á starfsmennta- og háskólabrautum, þar á meðal landgræðslu- og skógræktarnám en einnig nám í skógræktartækni, meðal annars með áherslu á landgræðsluskógrækt. Vaxandi áhersla er nú lögð á skógrækt og nýtingu viðar og annarra skógarafurða vítt og breitt um heiminn. Tækifærin eru því mörg fyrir fólk með skógarmenntun.
Þrír tíu manna vinnuhópar um sameiningarmál, skipaðir starfsfólki Skógræktar ríkisins og Landshlutaverkefna í skógrækt, hafa nú lokið störfum. Niðurstöður hópanna verða kynntar þegar allir starfsmenn stofnananna koma saman til stefnumótunarfundar 9. mars. Fjármálaráðuneytið mælir með því að ráðningarsamningar núverandi starfsmanna verði látnir halda sér yfir í nýja stofnun svo ekki þurfi að koma til uppsagna og endurráðningar þegar sameiningin gengur í garð
Útinám og skógarfræðsla hefur fest sig í sessi við marga leik- og grunnskóla landsins og víða hafa skólar aðgang að útikennslustofum í nálægum skógum. Fræðsla sem þessi er þó ekki síður mikilvæg við framhaldsskóla og á háskólastigi. Nú eru í boði námskeið við Tækniskólann, Listaháskóla Íslands og Háskóla Íslands þar sem nemendur læra að lesa í skóginn, umgangast hann og hirða, nytja og njóta.
Samtök evrópskra ríkisskóga, EUSTAFOR, standa fyrir ráðstefnu í Brussel í byrjun apríl þar sem fjallað verður um ábyrga nýtingu evrópskra skóga með hagsmuni fólks, loftslags og náttúru að leiðarljósi. Í tengslum við ráðstefnuna verður haldin sýning um þessi málefni og farið í kynnisferð þar sem litið verður á margvíslegt hlutverk og tilgang skóganna fyrir menn og umhverfi.