Skógarvinna er reglulegur þáttur í skólastarfi barnanna í Grunnskóla Drangsness. Skógarreitur skólans er á Klúku í Bjarnarfirði og þar fara þau vor og haust til að rækta meira, hlúa að því sem fyrir er, mæla trén, rannsaka annan gróður og njóta lífsins.
Námsfólk, 18 ára og eldra, getur nú sótt um tugi sumarstarfa hjá Skógræktinni um allt land. Í boði eru störf við skógrækt og skógarumhirðu, stígaviðhald á Þórsmörk, aðstoð við rannsóknir og fleira. Sótt er um á vef Vinnumálastofnunar.
Brynja Hrafnkelsdóttir ver þriðjudaginn 2. júní doktorsritgerð sína í skógfræði, með áherslu á skordýrafræði, við náttúru- og skógardeild Landbúnaðarháskóla Íslands. Doktorsritgerðin er á ensku með íslensku ágripi og er titill hennar „The interaction between native insect herbivores, introduced plant species and climate change in Iceland [Samspil á milli innlendra beitarskordýra, innfluttra plantna og loftslagsbreytinga á Íslandi]“.
Skógræktin gróðursetur í haust hálfri milljón fleiri birkiplöntur en áður hafði verið gert ráð fyrir. Jafnframt verður grisjun aukin í ungskógi á lögbýlum. Skógræktin sækir um framlag til að ráða sextíu sumarstarfsmenn og allt tengist þetta aðgerðum stjórnvalda vegna kórónufaraldursins. Í undirbúningi eru tilraunir með ræktun birkis í 400-600 metra hæð yfir sjó. Mikið er af hnignuðu landi í þessari hæð sem vert væri að græða upp með birki. Á láglendi er hins vegar óvíst hvernig birkinu ríður af með hlýnandi loftslagi.
Ingólfur Guðnason, námsbrautarstjóri garðyrkjuframleiðslu við LbhÍ, skrifar í Bændablaðið um hagnýtt og áhugavert nám sem er í boði við Garðyrkjuskóla LbhÍ á Reykjum í Ölfusi. Þetta er fjögurra anna bóklegt og verklegt nám í framleiðslu garð- og skógarplantna. Sækja má um þetta nám til 15. júní en það hefst í lok ágúst.