Birki í um 600 metra hæð í Austurdal í Skagafirði. Ljósmynd: Pétur Halldórsson
Birki í um 600 metra hæð í Austurdal í Skagafirði. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Skógræktin gróðursetur í haust hálfri milljón fleiri birkiplöntur en áður hafði verið gert ráð fyrir. Jafnframt verður grisjun aukin í ungskógi á lögbýlum. Skógræktin sækir um framlag til að ráða sextíu sumarstarfsmenn og allt tengist þetta aðgerðum stjórnvalda vegna kórónufaraldursins. Í undirbúningi eru tilraunir með ræktun birkis í 400-600 metra hæð yfir sjó. Mikið er af hnignuðu landi í þessari hæð sem vert væri að græða upp með birki. Á láglendi er hins vegar óvíst hvernig birkinu ríður af með hlýnandi loftslagi.

Morgunblaðið fjallaði um þessi mál á föstudaginn var, 22. maí, og ræddi við Þröst Eysteinsson skógræktarstjóra. Fram kemur að í birkiverkefnið fari 75 milljónir króna á þessu ári og 20 milljónir í aukna snemmgrisjun skóga á lögbýlum. Þröstur segir við blaðið að tekist hafi að semja við gróðrarstöðvar um að útvega birkiplöntur til gróðursetningar í haust, plöntur sem ella hefðu verið afhentar á næsta ári. Aukin framleiðslugeta sé nú hjá stærstu framleiðendunum, Sólskógum á Akureyri og Kvistum í Biskupstungum.

Ekki er hentugt að nota hvaða birkifræ sem er til framleiðslu á plöntum í gróðrarstöð. Fræið þarf að vera gott og hafa góða spírun svo að framleiðslan verði hagkvæm og plönturnar nógu þróttmiklar til gróðursetningar.

Er birkið ekki nógu vel aðlagað þegar hlýnar?

Þröstur segir að birkiverkefnið skiptist í nokkra þætti og nefnir að nú sé að hefjast undirbúningur með Landgræðslunni að tilraunum til að rækta birki í meiri hæð yfir sjó en hingað til hefur verið gert. „Við höfum sett saman rannsóknarhóp til að standa að þessu en eigum eftir að finna staðina og hvaða birkikvæmi við viljum prófa og síðan er að tína fræ af þeim í haust,“ segir Þröstur og heldur áfram:

„Ekki liggur fyrir hversu hátt við förum með birkið en ég hef nefnt 400-600 metra hæð. Í þeirri hæð er mikið af örfoka og illa förnu landi. Landgræðslan er með slík svæði í þessari hæð í sinni umsjón. Í drögum að friðlýsingu miðhálendisins var viðurkennt að það gæti verið eitt markmiðanna að endurheimta gróður á rofnum svæðum og að okkar mati verður það helst gert með birki.

Þá eru vísbendingar um að birki sé ekki nógu vel aðlagað aðstæðum á láglendi ef það hlýnar meira. Einnig ef það koma fleiri skaðvaldar eins og birkiþéla og birkikemba, sem ráðast á lauf birkisins, en einnig skordýr sem lengur hafa verið hér. Þetta gæti komið í ljós á næstu árum og áratugum.“

Jarðvegsbætir í skógrækt

Því næst nefnir Morgunblaðið tilrauna- og átaksverkefni umhverfisráðuneytisins ásamt Vistorku og Akureyrarbæ þar sem molta verður nýtt í akuryrkju, skógrækt og landgræðslu á Norðurlandi. Sagt var frá þessu nýlega hér á skogur.is enda leggur Skógræktin til ráðgjöf, umsjón og vinnu við rannsóknarþætti þessara verkefna. Molta verður notuð til skógræktar og landgræðslu í nágrenni Akureyrar, til landgræðslu og skógræktar á Hólasandi og ræktunar á repju í Eyjafirði.  Framlag ráðuneytisins er 15 milljónir króna en heildarumfang verkefnisins er metið á um 40 milljónir.

Því næst er minnst á að í næsta mánuði taki Sorpa í notkun nýja gas- og jarðgerðarstöð í Álfsnesi í Reykjavík. Stöðin á eftir að framleiða á hverju ári um þrjár milljónir rúmmetra (Nm3) af metangasi og tólf þúsund tonn af moltu sem fyrirtækið kallar jarðvegsbæti og telur að henta muni vel til landgræðslu. Morgunblaðið spyr skógærktarstjóra hvort skógrækt njóti góðs af þessu. Þröstur svarar því til að aukin áhersla sé á uppgræðslu með trjágróðri í samstarfi Landgræðslunnar og Skógræktarinnar og lífrænn jarðvegsbætir komi þar að góðum notum.

Sótt um 60 sumarstörf

Því næst ræðir Morgunblaðið um verkefnin í þjóðskógunum í sumar. Þjóðskógarnir njóta víða um land framlaga úr verkefnaáætlun um uppbyggingu innviða til ferðamannastaða en stærstu verkefnin eru á Þórsmörk og Goðalandi. Þröstur segir að Skógræktin hafi sótt um framlag vegna 60 sumarstarfa til Vinnumálastofnunar. „Það er næg sumarvinna fyrir skólafólk á tjaldsvæðum, við stígagerð, gróðursetningu og rannsóknir. Á þennan hátt gætum við gefið enn frekar í og um leið gert nemendum lífið aðeins auðveldara,“ segir Þröstur.

Loks nefnir blaðið að trjáknús Skógræktarinnar hafi flogið um allan heim. Sú hvatning til fólks að leita huggunar gegn veirufárinu með því að knúsa tré hafi slegið í gegn. „Við slógum algerlega í gegn með því að knúsa tré og miklu meira í útlöndum en á Íslandi. Við vorum nokkur hjá Skógræktinni sem fórum í viðtöl við erlenda miðla. Reuters og fleiri alþjóðlegar fréttastofur tóku málið upp og þetta var birt og endurbirt. Knúsið flaug um allan heim,“ segir Þröstur í samtalinu við Morgunblaðið.

Greinin í Morgunblaðinu 22. maí 2020

Texti: Pétur Halldórsson