Niðurstöður nýrrar rannsóknar sem fjallað er um í nýútkomnu tölublaði Rits Mógilsár benda til þess að nægjanlegt sé að gróðursetja á bilinu 2.500-3.000 plöntur á hektara í lerkirækt á Héraði. Lítil samkeppni var enn um vaxtarrými 15 árum eftir gróðursetningu, óháð því hversu þétt hafði verið gróðursett.
Kerstin Frank ver í dag meistaraprófsritgerð sína í haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetur Vestfjarða þar sem rannsakað er vistkerfi tveggja skógarreita á Vestfjörðum og könnuð viðhorf almennings til skógræktar á svæðinu. Lítil binding mældist í skógunum tveimur og enginn marktækur munur á uppleystu kolefni eða köfnunarefni í lækjum sem runnu gegnum eða utan reitanna enda skógurinn ungur.
Skógræktarfélag Eyfirðinga stendur nú á níræðu. Félagið var stofnað 11. maí 1930 og hefur starfað óslitið síðan. Félagar eru hartnær 400 talsins og félagið sinnir skógrækt á um það bil tíu svæðum við Eyjafjörð.
Athygli vekur hversu vel íslensk ösp kemur út í samanburðarmælingum á beygjutogþoli límtrésbita úr mismunandi íslenskum viðartegundum. Límtrésbitar úr íslensku timbri hafa verið þolprófaðar á vegum Nýsköpunarmiðstöð Íslands í samvinnu við Límtré Vírnet og Skógræktina. Sérfræðingarnir Eiríkur Þorsteinsson og Jón Sigurjónsson skrifuðu um tilraunirnar í ársskýrslu Nýsköpunarmiðstöðvar og birtist greinin á Vísi 9. maí.
Laugardaginn 9. maí 2020 eru liðin 100 ár frá því samningur um friðun Þórsmerkur var full­gilt­ur. Friðunin var gerð að tilstuðlan bænda og ábúenda jarða í Fljótshlíð auk Oddakirkju sem afsöluðu sér beitirétti á Þórsmörk, fólu Skógræktinni að vernda svæðið fyrir beit, svo hægt væri að bjarga þeim birkiskógum sem þar var enn að finna. Birkiskóglendið hefur breiðst mik­ið út alla þessa öld en hraðast síðustu áratugina. Þetta er eitt merkilegasta náttúruverndar­verkefni Íslendinga á 20. öld.