Í nýútkomnu tölublaði Rits Mógilsár eru birtar niðurstöður úr nýlegum mælingum á svokallaðri Rarik-tilraun sem sett var út fyrir aldarfjórðungi með fimmtíu birkikvæmum. Í ljós kemur að birki frá Suðausturlandi myndar mest fræ og hefur mest þol gegn birkiryði. Sunnlenskt birki hefur líka yfirburði í vexti og lifun. Höfundar telja að vinna ætti áfram með þann kynbótaávinning sem þegar hefur náðst svo þróa megi birki sem hentar almennt á láglendi Íslands.
Skógræktin hefur gefið út nýtt myndband um lífkolagerð og rannsóknarverkefnið sem nú er í gangi þar sem kannaður er ávinningurinn af því að blanda lífkolum í jarðveg ræktarlanda. Myndbandið gerði Hlynur Gauti Sigurðsson hjá Kviklandi.
Líf og fjör verður í skógum víða um land um næstu helgi. Skógardagurinn fer fram í Hallormsstaðaskógi og skógræktarfélög bjóða til fjölbreyttra viðburða undir yfirskriftinni Líf í lundi.
Mikil þurrkatíð hefur verið að undanförnu á Norður- og Austurlandi og því er ástæða til að vara fólk sérstaklega við því að fara með eld í skógum og öðru gróðurlendi. Kveikt var í tré í Hallormsstaðaskógi í síðustu viku en til allrar hamingju breiddist eldurinn ekki út.
Á síðasta starfsdegi Alþingis fyrir sumarleyfi, föstudaginn 9. júní, var samþykkt frumvarp um sameiningu Skógræktarinnar og Landgræðslunnar í nýja stofnun sem á að heita Land og skógur. Sameiningin gengur í gildi um áramótin.