Lífkol í nýrækt. Skjámynd úr myndbandinu
Lífkol í nýrækt. Skjámynd úr myndbandinu

Skógræktin hefur gefið út nýtt myndband um lífkolagerð og rannsóknarverkefnið sem nú er í gangi þar sem kannaður er ávinningurinn af því að blanda lífkolum í jarðveg ræktarlanda. Myndbandið gerði Hlynur Gauti Sigurðsson hjá Kviklandi.

Sagt var frá því hér á skogur.is í vor að hafið væri rannsóknarverkefni á vegum Skógræktarinnar í samvinnu við Landbúnaðarháskóla Íslands, Tandrabretti og fleiri, þar sem skoða ætti kosti þess að búa til lífkol úr íslenskum grisjunarviði og nýta til jarðvegsbóta í landbúnaði. Kolin gætu nýst vel til að binda kolefni til langframa í jarðvegi ræktarlanda og um leið auka gæði jarðvegsins og þar með uppskeru. Um leið myndi minnka þörfin fyrir notkun tilbúins áburðar við ræktunina.

Í myndbandinu segir Lárus Heiðarsson, sérfræðingur á rannsóknasviði Skógræktarinnar, frá rannsókninni og Hörður Guðmundsson frá Tandrabretti lýsir því hvernig kolin eru gerð í sérstökum kolagerðarofni með nútímatækni til að fylgjast með ferlinu.

Um viðtöl, myndatöku og úrvinnslu myndbandsins sá Hlynur Gauti Sigurðsson hjá Kviklandi.

Texti: Pétur Halldórsson