Hjá Skógrækt ríkisins fær enginn að vinna við skógarhögg og grisjun með keðjusög nema hann hafi hlotið tilskilda þjálfun og kennslu. Skylt er að nota allan þann hlífðarbúnað sem völ er á og gæta ítrasta öryggis í öllum vinnubrögðum. Ef rétt er að verki staðið er lítil slysahætta í skógarhöggi og -grisjun. Keðjusagir eru hins vegar hættuleg tæki fyrir fólk sem ekki kann með þær að fara.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður vinstri grænna, skrifar grein í DV í dag og ræðir þar um atvinnumál. Það land sem við höfum til ráðstöfunar muni verða ein meginauðlind okkar í framtíðinni. Skógrækt eigi sér bjarta framtíð hér á landi en þurfi þolinmótt fjármagn. Bjarkey spyr hvort þarna geti verið verkefni fyrir lífeyrissjóði landsins.
Árleg fagráðstefna skógræktar verður haldin í Borgarnesi 11. og 12. mars í samstarfi við NordGen Forest. Fyrri dagur ráðstefnunnar verður helgaður trjákynbótum og yfirskriftin „Aukin framleiðni skóga á jaðarsvæðum með trjákynbótum“. Seinni daginn verða fjölbreytt erindi um skógrækt í sinni fjölbreyttustu mynd. Skráning til 4. mars.
Fréttablaðið fjallar um arðskógrækt þriðjudaginn 17. febrúar og ræðir við Þorberg Hjalta Jónsson, skógfræðing á Rannsóknarstöð skógræktar, Mógilsá. Vitnað er í grein Þorbergs í nýlega útkomnu Riti Mógilsár sem hefur að geyma efni frá Fagráðstefnu skógræktar sem haldin var á Selfossi í mars í fyrra. Þar fjallaði Þorbergur Hjalti um þá möguleika sem byggju í nytjaskógrækt fyrir fjárfesta sem vildu binda fé sitt til langs tíma í arðbærum verkefnum.
Vísindamenn LbhÍ og Landgræðslunnar mældu mestu efnisflutninga sem sögur fara af í aftakaveðri sem varð árið 2010. Landrof var gríðarlegt og milljónir tonna hurfu á haf út. Gróskumikil vistkerfi með hávöxnum skógi þola betur áföll og draga úr neikvæðum áhrifum gjóskufalls. Um þetta er fjallað í Fréttablaðinu í dag.