Skógrækt þarf þolinmótt fjármagn

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður vinstri grænna, skrifar grein í DV í dag og ræðir þar um atvinnumál. Hún veltir meðal annars upp atvinnumálum í landsbyggðunum. Fjölbreytt atvinnulíf leiði af sér fjölbreytileika í mannlífi og þar með skemmtilegra samfélag. Því sé afar mikilvægt að landsbyggðirnar fái tækifæri og stuðning til að bjóða upp á eins mikinn fjölbreytileika í störfumog kostur er.

Eitt af því sem Bjarkey nefnir í grein sinni er skógrækt. Bjarkey skrifar:

Í framtíðinni mun það land sem við höfum til ráðstöfunar til ræktunar verða ein af okkar meginauðlindum. Með vaxandi gróðurhúsaáhrifum minnkar það land í heiminum sem nýtanlegt er til ræktunar. Þarna eru fólgin mikil tækifæri fyrir Íslendinga í framtíðinni. Hér verður og er raunar þegar hægt að rækta ýmislegt sem talið var útilokað fyrir einum il tveim áratugum. Mikilvægt er að leita sífellt nýrra leiða á þessu sviði. Jafnframt er ljóst að skógrækt á sér bjarta framtíð hér á landi. Þar er hins vegar um raunverulega langtímafjárfestingu að ræða og því verður að vera til ráðstöfunar í þann geira verulega þolinmótt fjármagn. Gæti verið verkefni fyrir lífeyrissjóði landsins?

Texti: Pétur Halldórsson