Sandfok á Skógaheiði það mesta sem mælst hefur á jörðinni

Vísindamenn LbhÍ og Landgræðslunnar mældu mestu efnisflutninga sem sögur fara af í aftakaveðri sem varð árið 2010. Landrof var gríðarlegt og milljónir tonna hurfu á haf út. Gróskumikil vistkerfi með hávöxnum skógi þola betur áföll og draga úr neikvæðum áhrifum gjóskufalls. Um þetta er fjallað í Fréttablaðinu í dag.

Greinina skrifar Svavar Hávarðsson blaðamaður og segir frá aftakaveðri á heiðum í nágrenni Eyjafjallajökuls dagana 14. og 15. september 2010 sem talið er hafa valdið mestu efnisflutningum og landrofi sem mælst hefur á jörðinni nokkru sinni. Sandfok í kjölfar eldgosa geti haft jafnmikil eða jafnvel meiri umhverfisáhrif en verða við öskufall í sjálfum eldsumbrotunum. Niðurstöður þessara mælinga Landgræðslu ríkisins og Landbúnaðarháskóla Íslands á gjóskufoki í kjölfar eldgossins í Eyjafjallajökli 2010 voru birtar í ritinu Scientific Reports sem gefið er út af Nature.

Rætt er við Jóhann Þórsson, sérfræðing hjá Landgræðslunni og einn rannsakendanna sem segir að vorið 2010 hafi verið sett upp mælitæki á Skógaheiði til að fylgjast með áhrifum gjósku frá eldgosinu í Eyjafjallajökli á gróður og land. Magn gosefna hafi enn verið í hámarki á svæðinu og svara hafi átt spurningum um hversu hratt gosefnin fara, hvert og hvernig. Slíkar mælingar hafi aldrei verið gerðar hér á landi áður. Rannsóknin sé sérstök að því leyti að í eyðimörkum og víðar þar sem sandfok er mælt hafi ekki mælst meiri efnisflutningar.

Að sögn Jóhanns hljóta þarna að hafa fokið milljónir tonna því á eins metra breiðu sniði mældist að allt að 12 tonn af efni hefðu fokið yfir á aðeins einum klukkutíma. Skógaheiðin sé stór en sem betur fer hafi efnið allt fokið til hafs. Innan árs var allt gosefni horfið af svæðinu en eftir stóðu sandblásnir steinar eftir óveðrið og sandfokið. Jóhann segir að dæmi hafi verið um að 75 prósent gróðurþekju á svæðinu hafi rifnað upp og fokið burt með sandinum. Öruggt sé að þetta sé ekki í fyrsta sinn sem þetta hafi gerst á Íslandi. Gosefni úr Heklu hafi til dæmis valdið miklu rofi í Rangárvallasýslu á 18. og 19. öld.

í þessu sambandi má skjóta inn í að markmið Hekluskógaverkefnisins er að rækta skóga sem þola betur öskufall og draga úr öskufoki eftir öskugos í eldstöðvum eins og Heklu og Eyjafjallajökli. Í myndatexta með frétt Fréttablaðsins segir:

Gróskumikil vistkerfi með háum skógi þola betur áföll og draga úr neikvæðum áhrifum gjóskufalls.

Loks kemur fram í fréttinni að niðurstöður mælinganna á Skógaheiði dragi athyglina að því hvernig draga megi úr skaðsemi eldgosa með markvissri uppbyggingu vistkerfa á eldvirkum svæðum. Gjóskustormar geti valdið skaða löngu eftir að eldgosi lýkur og mikilvægt að öflug vistkerfi séu til staðar til að draga úr langvinnum áhrifum öskustorma.

Greinin sem hefur að geyma niðurstöður mælinganna heitir An extreme wind erosion event of the fresh Eyjafjallajökull 2010 volcanic ash. Greinina skrifa þau Ólafur Arnalds, Elín Fjóla Þórarinsdóttir, Jóhann Þórsson, Pavla Dagsson Waldhauserova og Anna María Ágústsdóttir. Hún birtist sem fyrr segir í vísindamiðli tímaritsins Nature, Scientific Reports.

Texti: Pétur Halldórsson