Félag skógarbænda á Vesturlandi hlaut í gær 800 þúsund króna styrk frá Uppbyggingarsjóði Vesturlands til að gera viðarmagnsúttekt á Vesturlandi. Reiknað verður út viðarmagn í öllum ræktuðum skógum á Vesturlandi og gert er ráð fyrir að meistaranemi við Landbúnaðarháskóla Íslands taki þátt í að vinna verkið og birti niðurstöðurnar í lokaritgerð sinni.
Tökur á nýju Star Wars myndinni sem verður númer VIII í röðinni hófust í dag á Mógilsá. Skógurinn ofan við Rannsóknastöð skógræktar á Mógilsá í Kollafirði hefur því verið lokaður almenningi. Skógrækt ríkisins biður fólk að virða þessa lokun en á svæðinu verður mikil öryggisgæsla enda eru þar geymdar eftirlíkingar af geimskutlum og öðrum búnaði sem nýttur verður við tökur myndarinnar. Ekki fæst uppgefið hvort helstu stórstjörnur myndarinnar eru á staðnum.
Skógrækt ríkisins er fjórða vinsælasta ríkisstofnunin meðal þjóðarinnar af þeim ríflega þrjátíu stofnunum sem Maskína spurði um í nýrri könnun. Aðeins Landhelgisgæslan, Veðurstofan og Þjóðminjasafnið mældust njóta meiri jákvæðni hjá þjóðinni. Skógræktin lenti í sjötta sæti þegar spurt var hversu vel eða illa fólk þekkti til ríkisstofnana.
Þjónustuhús sem nú er verið að reisa á Vatnsskarði eystra verður að hluta klætt lerki úr Hallormsstaðaskógi. Pallar umhverfis það verða sömuleiðis smíðaðir úr Hallormsstaðalerki. Húsið bætir mjög aðstöðu ferðafólks sem kemur til að skoða Stórurð og annað í náttúru Dyrfjalla.
Myndarleg timburstæða blasir nú við vegfarendum sem aka þjóðveg 1 um Svignaskarð í Borgarfirði. Í stæðunni eru 186 rúmmetrar af timbri sem fékkst með grisjun tæplega hálfrar aldar gamallar furu í Daníelslundi. Stæðan er mjög myndarleg og hæð hennar rúmlega tveir skógræktarstjórar með uppréttan handlegg.