Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri við myndarlega timburstæðuna hjá Daníelslundi í Svignaskarði Bo…
Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri við myndarlega timburstæðuna hjá Daníelslundi í Svignaskarði Borgarfirði.

Mikið timbur fékkst við grisjun Daníelslundar

Fyrir nokkru sögðum við hér á vefnum skogur.is frá könglatínslu af felldum furutrjám eftir grisjun í Daníelslundi í Svignaskarði. Vænta má að afraksturinn verði mikið og gott fræ sem nýtast mun áframhaldandi skógrækt. Jafnframt fékkst mikill og góður grisjunarviður úr skóginum.

Nú hafa verktakarnir Kristján Már Magnússon og Óskar Einarsson lokið við að keyra bolunum úr skóginum og staflað þeim upp á bílastæðinu fyrir framan hann. Valdimar Reynisson, skógarvörður á Vesturlandi, hefur mælt stæðuna og í henni reyndust vera 186 rúmmetrar timburs. Mest er það stafafura en svolítið var af sitkagreni með.

Myndarlegur staflinn blasir við frá þjóðvegi 1 og þegar skógræktarstjóri átti þar leið hjá stansaði hann við Daníelslund til að virða timbrið fyrir sér. Með uppréttan handlegg nær hann rétt um tveggja metra hæð og af því má sjá að stæðan er tveir skógræktarstjórar með hönd á lofti, eða um fjögurra metra há.

Texti og mynd: Þröstur Eysteinsson