Átta umsækjendur eru um embætti landgræðslustjóra, en umhverfis- og auðlindaráðuneytið auglýsti embættið laust til umsóknar þann 5. mars síðastliðinn. Þetta kemur fram á vef umhverfis- og auðlindaráðuneytisins í dag.
Þór Þorfinnsson, skógarvörður á Austurlandi, tók í liðinni viku myndir af sérstæðum útvexti á birkitré sem stendur í trjásafninu í Mörkinni á Hallormsstað. Þór man að þegar hann flutti í skóginn 1984 var þetta fyrirbrigði á stærð við epli en greinilegt er að það hefur stækkað mikið síðan, enda ríflega þrír áratugir liðnir. Fyrirbrigði þetta er stundum kallað trjánýra og er eftirsótt til tálgunar og rennismíði.
Í tilefni af alþjóðlegum degi skóga 21. mars var rætt við Bjarna Diðrik Sigurðsson, prófessor í skógfræði við Landbúnaðarháskóla Íslands, í Samfélaginu á Rás 1. Þar kom meðal annars fram að umfangsmikil skógrækt væri stunduð í heiminum í því augnamiði að vernda vatnsauðlindir. Skógivaxin vatnasvið og votlendissvæði eru uppspretta þriggja fjórðu alls ferskvatns á jörðinni.
Um helgina var haldið 20. námskeiðið á vegum Sr og Lbhí í húsgagnagerð úr skógarefni. Námskeiðið var haldið í húsaakynnum Skógræktarfélags Árnesinga á Snæfoksstöðum þar sem góð skemma hýsti 13 þátttakendur úr ýmsum áttum. Sumir komu af Suðurlandi, aðrir úr Reykjavík og enn aðrir áttu sumarhús á Suðurlandi. Smiðir voru áberandi margir á námskeiðinu.
„Við losnum við að klifra í trám með því að tína könglana af greinunum eftir grisjun,“ segir Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, framkvæmdastjóri Vesturlandsskóga, í sjónvarpsþættinum Landanum sem sýndur var í Sjónvarpinu sunnudaginn 20. mars. Landinn fylgdist með þegar starfsfólk Vesturlandsskóga, Skógrækarfélags Reykjavíkur og fleira skógarfólk tíndi köngla Í Daníelslundi við Svignaskarð í Borgarfirði. Könglarnir eru síðan fluttir að Tumastöðum í Fljótshlíð þar sem frævinnslan fer fram.