Rætt við Bjarna Diðrik Sigurðsson í Samfélaginu á Rás 1

Í tilefni af alþjóðlegum degi skóga 21. mars var rætt við Bjarna Diðrik Sigurðsson, prófessor í skógfræði við Landbúnaðar­háskóla Íslands, í Samfélaginu á Rás 1. Þar kom meðal annars fram að umfangs­mikil skógrækt væri stunduð í heiminum í því augnamiði að vernda vatnsauðlindir. Skógivaxin vatnasvið og votlendissvæði eru uppspretta þriggja fjórðu alls ferskvatns á jörðinni.

Vatn var þema alþjóðlegs dags skóga þetta árið hjá Sameinuðu þjóðunum. Dagurinn er haldinn 21. mars ár hvert.

Bjarni Diðrik segir í viðtali við Leif Hauksson í Samfélaginu að sýnt hafi verið fram á að þar sem skógar vaxa við læki og vötn dragi úr streymi efna eins og köfnunarefnis og fosfórs út í vatnið. Þetta kom meðal annars skýrt fram í verkefninu SkógVatn sem unnið var hér á landi. Einnig kom fram að þrettánfalt meiri nýmyndun lífræns efnis væri á skógarsvæðum en skóglausum svæðum sem þýðir að lífríkið hefur úr mun meiri næringu að spila. Örverur og smádýr nærast á þessum efnum og því meira sem þeim fjölgar því meira hafa stærri dýr eins og fiskar og fuglar að éta. Skógur við ár og vötn eflir því lífríkið og eykur fiskgengd.

Því má bæta við til fróðleiks og gamans að í dag, 22. mars, er alþjóðlegur dagur vatns.

Texti: Pétur Halldórsson