Þetta myndarlega trjánýra á birkitré í Mörkinni á Hallormsstað hefur vaxið og dafnað síðustu áratugi…
Þetta myndarlega trjánýra á birkitré í Mörkinni á Hallormsstað hefur vaxið og dafnað síðustu áratugi. Viðurinn úr slíkum „nýrum“ er vinsæll hjá handverksfólki.

Vinsæll viður til tálgunar og rennismíði

Þór Þorfinnsson, skógarvörður á Austurlandi, tók í liðinni viku myndir af sérstæðum útvexti á birkitré sem stendur í trjásafninu í Mörkinni á Hallormsstað. Þór man að þegar hann flutti í skóginn 1984 var þetta fyrirbrigði á stærð við epli en greinilegt er að það hefur stækkað mikið síðan, enda ríflega þrír áratugir liðnir. En hvaða fyrirbrigði er þetta?

Útvöxtur sem þessi er stundum kallaður trjánýra á íslensku en líka heyrast orð eins og kýli, hnútar, æxli og kannski fleiri orð. Yfirleitt er þetta í laginu eins og hálf kúla og situr á stofni trésins. Algengast er að sjá þetta á birki- og reynitrjám hérlendis en þetta þekkist líka á fleiri tegundum eins og greni og furu. Orsökin er plöntusjúkdómur eða veirusýking.


Trén virðast ekki líða fyrir þennan útvöxt og raunar eru trjánýrun skemmtilegur afkimi viðarnytja því viðurinn í þeim er harðari en í trénu sjálfu, springur síður og er gjarnan mjög óreglulegur og blæbrigðaríkur. Þetta gerir hann eftirsóttan hjá trjáskurðarfólki og trérennismiðum. Úr litlum trjánýrum er upplagt að tálga drykkjarmál til að nota á gönguferðum en sömuleiðis er vinsælt að nota þennan við í alls kyns aðra hluti svo sem skálar, hnífsköft, trébolta, lampa eða hvaðeina sem hugur listamannsins kann að vilja framkalla. Hefð er fyrir því meðal Sama að búa til trommur úr stórum trjánýrum.

.

Texti: Pétur Halldórsson
Myndir: Þór Þorfinnsson