Flestir starfsmenn Skógræktar ríkisins og Landshlutaverkefnanna tóku þátt í stefnumótunarfundi um nýja skógræktarstofnun sem haldinn var á Grand hótel í Reykjavík í gær. Unnið var með þjóðfundarfyrirkomulagi á átta hringborðum og er afrakstur fundarins dýrmætt vegarnesti stýrihóps sem vinnur áfram að mótun nýrrar stofnunar sem stefnt er að því að taki til starfa á miðju sumri komanda. Sem kunnugt er hefur verið lagt til að hin nýja stofnun fái heitið Skógræktin.
Fjögur verkefni sem tengjast skógrækt og skógarnytjum hlutu styrki úr Uppbyggingarsjóði Austurlands sem nýlega tilkynnti um úthlutun ársins 2016. Greinilegt er að skógarauðlindin sem nú er að sýna sig fyrir alvöru á Austurlandi er uppspretta ýmissa hugmynda um nýtingu skógarafurða til atvinnuuppbyggingar og verðmætasköpunar.
Á dögunum var unnið að grisjun elsta hluta barrskógarins í Svignaskarði þar sem heitir Daníelslundur. Grisjun var orðin tímabær í þessum skógi sem farið var að rækta á sjöunda áratug síðustu aldar. Eftir grisjunina lá eftir mikið af stafafurugreinum og nú hafa verið tínd af þeim 135 kíló af könglum sem ættu að gefa mikið af góðu fræi. Meiningin er að safna meiru á föstudag, 11. mars, og eru allar vinnufúsar hendur velkomnar að taka þátt í því.
Búnaðarþing sem stendur yfir þessa dagana hefur falið stjórn Bændasamtaka Íslands að vinna að því að kolefnislosun landbúnaðar verði metin og gerð áætlun um hvað þurfi til að kolefnisjafna búskapinn. Skógrækt sé viðurkennd mótvægisaðgerð gegn gróðurhúsaáhrifum og því skuli vinna með Landssamtökum skógarbænda að áætlun um kolefnisjöfnun með skógrækt á jörðum bænda.
Á degi framhaldsnema við Landbúnaðarháskóla Íslands sem haldinn verður á Hvanneyri á morgun, 3. mars, fjallar Guðríður Baldvindóttir um áhrif sauðfjárbeitar í ræktuðum ungskógi og viðhorf skógar- og sauðfjárbænda til skógarbeitar. Guðríður vinnur nú að meistararannsókn um þetta efni. Þá talar einnig annar meistaranemi, Sævar Hreiðarsson, um eiginleika íslensks trjáviðar, þéttleika hans og endingu. Hvort tveggja eru þetta málefni sem eru ofarlega á baugi um þessar mundir, nauðsyn þess að beita fé á gjöfult og sjálfbært land og spurningin um hvernig sú viðarauðlind sem er að verða til í landinu verður best nýtt.