Upplagt er að nýta tækifærið þegar skógur er grisjaður og tína köngla af greinunum sem liggja eftir …
Upplagt er að nýta tækifærið þegar skógur er grisjaður og tína köngla af greinunum sem liggja eftir í skóginum. Hér sést ofan í könglasekk eftir frætínslu í Daníelslundi í Borgarfirði. Mynd: Hrafn Óskarsson.

136 kíló af stafafurukönglum fengust í Daníelslundi í Borgarfirði

Á dögunum var unnið að grisjun elsta hluta barrskógarins í Svignaskarði þar sem heitir Daníelslundur. Komið var að grisjun í þessum hluta skógarins sem farið var að rækta á sjöunda áratug síðustu aldar. Eftir grisjunina lá eftir mikið af stafafurugreinum og nú hafa verið tínd af greinunum 135 kíló af könglum sem ættu að gefa mikið af góðu fræi. Meiningin er að safna öðru eins, ef ekki meiru, á föstudag og eru allar vinnufúsar hendur velkomnar að taka þátt í því. Hafist verður handa á tíunda tímanum á föstudagsmorgun, 11. mars.

Daníelslundur er í alfaraleið við Hringveginn og tilvalinn útivistar- og áningarstaður. Í skóginum eru góðir göngustígar, rjóður með bekkjum og borðum og grill. Lundurinn ber nafn Daníels Kristjánssonar frá Hreðavatni sem lengi var forvígismaður í Skógræktarfélagi Borgarfjarðar en starfaði líka sem skógarvörður Skógræktar ríkisins á Vesturlandi í 37 ár, frá 1941-1978.


Góður árangur á rýru landi

Skógræktarfélag Borgarfjarðar hóf skógrækt á svæðinu árið 1961 á 25 hektara spildu. Í upphafi var alltaf talað um skógræktarsvæðið sem Svignaskarðsgirðingu en árið 1978 var landið stækkað og farið að tala um Daníelslund, til heiðurs Daníel skógarverði sjötugum.

Víst er að árangur skógræktarinnar í Daníelslundi hefur komið mjög á óvart, ekki síst þeim sem upplifðu ýmis áföll þar fyrstu árin. Mesta athygli vekur að efst á klapparholtinu, sem margir héldu í upphafi að ekki væri trjáplöntum bjóðandi, vex trjágróður ágætlega. Skilyrði til skógræktar eru mun betri en ætlað var og hafa auðvitað farið batnandi eftir því sem skógurinn hefur dafnað.


Hálfrar aldar skógur

Stafafurulundurinn sem nú er grisjaður var ein stærsta samfellda stafafuru­gróðursetn­ing á sinni tíð. Árið 1964 voru gróðursettar á þessum stað 8.500 stafafuruplöntur frá Skagway í Alaska, 15.000 árið eftir og áfram var haldið næstu árin. Þá var þetta opið svæði, berskjaldað fyrir öllum vind­áttum. Sagt er að ræktunin hafi gengið heldur brösuglega fyrir sig fyrstu áratugina. Haft er eftir Snorra Sigurðssyni skógfræð­ingi, sem nú er látinn, að Daníelslundur hafi alls verið „talinn af“ sjö sinnum á þessum árum. Særokið af Faxaflóa lék skóginn grátt í vetrarveðrum, furutrén urðu rauðleit og sýndust dauð. Alltaf náðu þau sér þó aftur á strik á endanum og urðu að myndarlegum trjám.


Landið þar sem Daníelslundur stendur var upphaflega rýr úthagi með lágvöxnu birkikjarri inn á milli ógróinna mela. Einungis var gróðursett í grónu blettina, enda var þá talið óráð að gróðursetja trjáplöntur í ógróna mela. Eftir því sem fururnar stækkuðu, huldust melarnir furunálum sem stöðvuðu frostlyfingu á yfirborðinu um svipað leyti og furufræ fór að berast í melana. Því má nú sjá þarna tvær kynslóðir furuskógar, annars vegar furuna sem gróðursett var fyrir hálfri öld og hins vegar afkomendur þeirra, sjálfsáin furutré sem vaxið hafa upp af fræi eldri trjánna síðustu tuttugu árin eða svo.

Upplagt að safna fræi eftir grisjun

Grisjun furuskógar er upplagt tækifæri til fræsöfnunar því eftir grisjunina liggja greinar trjánna eftir í skóginum og auðvelt að tína af þeim könglana. Flokkur skógaræktarfólks gekk um grisjunarsvæðið á þriðjudaginn var og tíndi köngla. Hafði hópurinn 136 kíló af könglum upp úr krafsinu sem ættu að geta gefið fræ í tugþúsundir trjáplantna til frekari afreka í skógrækt.


Skógræktarfélag Borgarfjarðar var stofnað 1948 og hefur starfað af krafti síðan. Eitt meginmarkmiða félagsins um þessar mundir er að opna skóga sína betur fyrir almenningi og bæta þar aðstöðu. Daníelslundur var fyrsti skógur landsins til að hljóta titilinn Opinn skógur árið 2002 og þá var gefinn út vandaður bæklingur með helstu upplýsingum um svæðið ásamt myndum og korti.

Óvenjulegur tími til könglatínslu?

En hvernig stendur á því að hægt er að tína stafafuruköngla þegar komið er fram í marsmánuð, birkifræ löngu horfið úr reklunum og grenifræ úr grenikönglunum? Aðeins stafafurufræ er enn hægt að tína úr könglum. Ástæðan er sú, að verulegur hluti köngla stafafuru frá Skagway hefur að bera eiginleika sem á ensku nefnist ‚cone serotiny‘ – þ.e.a.s. könglarnir eru fastheldnir á fræið og opnast ekki nema í hlýindum (20-40 °C), eða með því að vera í stuttan tíma settir í mjög háan hita (100-200°C) sem í náttúrunni gerist helst vegna skógarelds. Svo virðist sem óvenjumargir könglar séu í ár lokaðir og fullir af fræjum, sennilega vegna þess að haustið var svalt og votviðrasamt og hitinn ekki nægur til að könglar gætu hrist úr sér fræin.

Könglatínsla á föstudag

Sem fyrr segir verður haldið aftur í Daníelslund á föstudag til að tína köngla og eru allir velkomnir sem vilja leggja hönd á plóginn og njóta útiveru í skóginum um leið. Hafist verður handa á tíunda tímanum á föstudagsmorgun, 11. mars.

Texti: Pétur Halldórsson



Aðalsteinn Sigurgeirsson við tvenns konar afurðir Daníelslundar, furuboli
og furuköngla. Á bak við eru falleg sitkagrenitré sem einnig er mikið af í skóginum.
Trén sem eftir standa að lokinni grisjun og verða að dýrmætum bolviði í fyllingu tímans.
Mynd: Hrafn Óskarsson.

"> Nóg er af könglum á greinunum. Furan í Daníelslundi
er bein og falleg Skagway-fura. Mynd: Sigríður Júlía Brynleifsdóttir..