Laugardaginn 19. júlí var jarðsunginn á Hálsi í Fnjóskadal Kristján Jónsson, bóndi á Veturliðastöðum. Kristján vann hjá Skógrækt ríkisins í aldarfjórðung eða svo. Hann var hagur á járn og tré og smíðaði m.a. vél til að leggja út plast fyrir skjólbelti.
Eitt sinn ógnaði sandfok byggðinni á Kirkjubæjarklaustri en nú vex þar myndarlegur skógur sem státar af hæsta tré á Íslandi, sitkagreni sem var ríflega 25 metra hátt sumarið 2012. Annað sitkagrenitré í sama skógi er 70 cm svert í brjósthæð manns og inniheldur líklega um tvo rúmmetra af trjáviði.
Helstu tíðindi úr umdæmi skógarvarðarins á Vesturlandi í sumar eru að nú er kominn út bæklingur um Stálpastaðaskóg með korti, gönguleiðum og öðrum upplýsingum. Gönguleið verður gerð í sumar í landi Litla-Skarðs í Norðurárdal fyrir styrk frá atvinnuvegaráðuneytinu til uppbyggingar á ferðamannastöðum. Mjög blautt er nú í skógunum í Skorradal og víðar á Vesturlandi, svo mjög að erfitt er víða að fara um með vélar.
Aldrei hefur verið meiri uppskera af lerkifræi en í fyrra í fræhöllinni á Vöglum í Fnjóskadal þar sem frjóvgað er saman rússalerki og evrópulerki svo út kemur blendingsyrkið ‚Hrymur‘. Helmingi fræsins var dreift til gróðrarstöðva í vor en hinn helmingurinn geymdur til næsta árs. Því ætti talsvert að verða tiltækt af Hrym til gróðursetningar bæði 2015 og 2016.
Haustið 2013 heimsótti íslenskt skógræktarfólk regnskógana í Quinault-dalnum á vestanverðum Ólympíuskaga í Washington-ríki í Bandaríkjunum. Allt skógræktarfólk ætti einhvern tíma á ævinni að upplifa með berum augum og í návígi stórkostleg og risastór tré eins og þarna eru.