Laugardaginn 19. júlí var jarðsunginn á Hálsi í Fnjóskadal Kristján Jónsson, bóndi á Veturliðastöðum. Kristján vann hjá Skógrækt ríkisins í aldarfjórðung eða svo. Hann var hagur á járn og tré og smíðaði m.a. vél til að leggja út plast fyrir skjólbelti.

Kristján Jónsson fæddist á Víðivöllum í Fnjóskadal 1. janúar 1937 en lést á Sjúkrahúsinu á Akureyri  4. júlí 2014. Hann ólst upp á Víðivöllum, lauk námi í búvísindum í Bændaskólanum á Hólum og  vegna góðrar frammistöðu þar var honum boðin ókeypis dvöl við lýðháskóla sænsku bændasamtakanna, Sånga Säby, þar sem hann stundaði nám vetrarlangt 1958-1959. Að skóla loknum starfaði hann í Noregi framan af sumri en sneri þá heim til búskaparstarfa á Víðivöllum. Árið 1969 keypti hann jörðina Veturliðastaði í Fnjóskadal ásamt konu sinni, Guðríði H. Arnþórsdóttur. Þau byggðu þar upp myndarlegt sauðfjárbú en Kristján vann alla tíð önnur störf með búskapnum. Aðallega ók hann vörubíl lengi vel en hóf störf hjá Skógrækt ríkisins á árunum fyrir 1980, framan af í sumarstarfi. Þar vann hann við akstur, smíðar og fjölmargt annað. Kristján var útsjónarsamur og fundvís á snjallar lausnir og smíðaði til dæmis tvær plastlagningarvélar til að nota við ræktun skjólbelta, aðra fyrir Skógræktina og hina fyrir Skógræktarfélag Eyfirðinga.

Auk framangreindra starfa var Kristján héraðslögreglumaður  í 45 ár og hlaut viðurkenningu fyrir þau störf að ferli loknum.  Hann starfaði að félagsmálum í sveitinni, sat í hreppsnefnd og var formaður Búnaðarfélags Suður-Fnjóskdæla um skeið. Síðustu árin átti Kristján við alvarlega vanheilsu að stríða og var bundinn erfiðri sjúkrameðferð, sem hann tók af mikilli yfirvegun og þolinmæði. Síðasta árið dvaldi hann nær alveg á sjúkrahúsum en lengi vel náði hann þó að eiga stundir með fjölskyldunni heima á Veturliðastöðum.

Skógrækt ríkisins vottar fjölskyldu Kristjáns Jónssonar samúð. Hans verður minnst hjá Skógræktinni með þakklæti fyrir góð kynni og vel unnin störf.