Ef meðalhiti á Íslandi hækkar um tvær gráður gætu birkiskógar breiðst út um mestallt hálendi Íslands. Þetta kemur fram í grein Björns Traustasonar, Bjarka Þórs Kjartanssonar og Þorbergs Hjalta Jónssonar, sérfræðinga á Mógilsá, sem er meðal efnis í nýútkomnu Ársriti Skógræktar ríkisins 2013.
Margvísleg verkefni eru á könnu embættis skógarvarðarins á Suðurlandi í sumar. Nú er í gangi samkeppni um nýja göngubrú á Markarfljót við Húsadal, talsvert er unnið að gróðursetningum og grisjun og framlag sjálfboðaliða samsvarar um 7 og hálfu ársverki. „Skógarnir eru grænir og fallegri,“ segir skógarvörður.
Rannsóknir kanadískra vísindamanna sýna að tré geta skipst á nauðsynlegum næringar- og orkuefnum með hjálp umfangsmikilla svepprótakerfa. Gömul tré í skógum gegna sérstaklega mikilvægu hlutverki, ekki síst fyrir nýgræðing, og mismunandi trjátegundir geta haft viðskipti með kolefni og önnur efni eftir þörfum á mismunandi árstímum. Betri þekking á svepprótakerfum getur nýst til að liðka fyrir færslu skóga samfara loftslagsbreytingum.
Í aðdraganda heimsráðstefnunnar IUFRO2014, sem alþjóðlega skógrannsóknaráðið IUFRO heldur í haust, hefur ráðið búið til vettvang fyrir skógvísindafólk til að koma verkefnum sínum og rannsóknum á framfæri. Til að hvetja fólk til þátttöku er efnt til eins konar bloggsamkeppni þar sem 500 Bandaríkjadollarar eru í vinning fyrir besta skógrannsóknarbloggið.
Fimm hæða íbúðablokk í Hamborg er að mestu leyti gerð úr timbri og þar eru hvorki notaðar málmskrúfur, lím né plast. Vistspor hússins er mjög lítið miðað við hefðbundnar byggingar og orkan sem fer í að reisa venjulega íbúðablokk myndi nægja til að reisa 70 viðarblokkir.