Grein um mögulegan skógarvöxt á hálendinu meðal efnis

Geta tré vaxið á Sprengisandi? er yfirskrift greinar Björns Traustasonar, Bjarka Þórs Kjartanssonar og Þorbergs Hjalta Jónssonar, sem er meðal efnis í Ársriti Skógræktar ríkisins sem komið er út fyrir árið 2013.

Í greininni rekja þeir í máli og myndum hvernig þróun gróðurfars gæti orðið á landinu með þeirri hlýnun sem spáð er að verði á næstu áratugum og öldum. Útlit er fyrir að skógar geti vaxið á mestöllu hálendinu miðað við útreikningana sem kynntir eru í greininni.

Þeir félagarnir keyrðu spálíkön fyrir nokkrar mismunandi sviðsmyndir sem mögulegar eru. Þar sem vöxtur trjáa og útbreiðsla er að miklu leyti háð hitafari á Íslandi sé líklegt að hlýnandi veðurfar hafi mikil áhrif á skilyrðin í náinni framtíð.  Með því að gera landfræðilega greiningu á skógarmörkum kemur í ljós að fræðileg gróðurmörk þurfa ekki að hækka mjög mikið til þess að möguleg útbreiðslusvæði trjágróðurs stækki stórlega á landinu. Nú þegar eru komin skilyrði fyrir birki að vaxa á hluta Sprengisands. Í greininni segir orðrétt:

Til þess að birki geti vaxið í jaðri [Sprengisands] þarf meðalhiti sumars að hækka um 1°C frá meðaltalinu sem er nálægt þeirri hlýnun sem orðið hefur frá árinu 2000. Það þýðir að hitafarsleg skilyrði eru nú fyrir vöxt birkis á litlum hluta Sprengisands miðað við núverandi loftslag. Við 1,5°C hlýnun stækkar svæðið á suðvesturhluta Sprengisands og við 2°C hlýnun frá meðaltali áranna 1961-2006 skapast hitafarsleg skilyrði til vaxtar borkis á stórum hluta Sprengisands. Til að þær aðstæður verði að veruleika þarf að hlýna um rúmlega 1°C frá því sem nú er.

Af öðru efni í Ársriti Skógræktar ríkisins 2013 má nefna að eins og venjulega skrifar Jón Loftsson skógræktarstjóri inngangsgrein undir heitinu Gengið til skógar og rekur helstu tíðindi af skógum og skógrækt á liðnu ári. Meðal annars vísar hann til þeirra fyrirheita sem ríkisstjórnin gaf í stefnuyfirlýsingu sinni á árinu um verndun náttúru og eflingu landgræðslu og skógræktar en líka um að brýnt væri að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Í Ársritinu fara þau Brynja Hrafnkelsdóttir, Edda S. Oddsdóttir og Halldór Sverrisson yfir heilsufar trjágróðurs á árinu 2013 og þær Brynja og Edda skrifa grein ásamt Guðmundi Halldórssynium skordýrafaraldra á birki á Auasturlandi undanfarin 100 ár. Lárus Heiðarsson, Rúnar Ísleifsson, Hreinn Óskarsson og Valdimar Reynisson tíunda tiltækt magn grisjunarviðar í nokkrum af þjóðskógunum og Rúnar Ísleifsson skrifar um athugun á hagkvæmni þess að kynda húsin í Grímsey með íslensku viðarkurli. Þröstur Eysteinsson fer yfir stöðu og þróun viðarsölu Skógræktar ríkisins 2013 og segir frá metuppskeru fræs af lerkiblendingnum Hrym. Hreinn Óskarsson segir frá samkeppni um þjónustuhús í þjóðskógunum sem fram fór á síðasta ári og kynnir ásamt Rúnari Ísleifssyni nýtingaráætlun fyrir Laugarvatn í Bláskógabyggð fyrir árin 2013-2022. Þá skrifar Hreinn líka forvitnilega grein um skóginn á Kirkjubæjarklaustri. Ólafur Eggertsson skrifar grein um vöxt birkis á Hallormsstað árin 1950-2011 og tengsl við veðurfar og maðkaár, Ólafur Oddsson um skóginn og nýja námskrá grunnskólanna og Hallgrímur Indriðason segir frá fundi norræna skógarsögufélagsins, Nordisk skoghistorisk forening, sem haldinn var í Reykjavík í september 2013. Loks fer Gunnlaugur Guðjónsson, fjármálastjóri Skógræktarinnar, yfir fjármál stofnunarinnar og ársreikningur er birtur.

Nánari upplýsingar um Ársritið gefa Esther Ösp Gunnarsdóttir og Pétur Halldórsson.