Samkeppni um göngubrú á Markarfljót við Húsadal meðal verkefna í sumar

Vefurinn skogur.is er þessa dagana að fara yfir landið og leita frétta af sumarverkum á starfsvæðum skógarvarðarembættanna. Við fréttum af starfsvæði skógarvarðarins á Vöglum fyrr í vikunni en nú er komið að Hreini Óskarssyni, skógarverði á Suðurlandi, sem hefur aðalbækistöðvar í Gunnarsholti á Rangárvöllum. Hreinn svarar því þegar hann er spurður um helstu verkefnin í sumar að kannski sé einfaldara að svara hvaða verkefni hann sé ekki að sinna. Tímafrekustu verkefni skógarvarðarins séu samskipti með tölvupósti og síma, auk aksturs og stjórnunar.

Annars segir Hreinn að á svæði hans verði gróðursettar um 50 þúsund trjáplöntur á vegum Skógræktar ríkisins og um 250 þúsund á vegum Hekluskóga. Einnig verði borið á nokkrar fyrri gróðursetningar. Mest verður sett niður af birki í ógróið land. Katla Travel styrkir gróðursetningu á birki í Haukadalsheiði. Í Hjálmarsskógum í Þjórsárdal verður sett niður birki og reyniviður, jólatré í Þjórsárdal og Haukadal auk ýmissa gróðursetninga annars staðar, t.d. í Skarfanesi, á Tumastöðum og víðar. Fyrirtækið Iceland travel hefur líka fengið úthlutað reit í Haukadal þar sem ferðafólki á vegum fyrirtækisins gefst kostur á að gróðursetja tré sem hluta af upplifun sinni á Íslandi.

Af öðrum framkvæmdum sumarsins nefnir Hreinn að mikið verði unnið við uppbygging ferðamannastaða í sunnlensku skógunum. Á þeim verkefnalista er stígur og útsýnispallur á Kirkjubæjarklaustri, gönguleið og pallar við Hjálparfoss í Þjórsárdal, lokahönnun og framkvæmdir við áningarstað á Laugarvatni, opnun snyrtiaðstöðu Haukadal í tengslum við gönguleiðir fyrir alla (líka hjólastóla), gönguleiðir á Þórsmörk og færanlegar göngubrýr.

Göngubrú yfir Markarfljót

Um hríð hefur verið í undirbúningi að koma upp göngubrú yfir Markarfljót við Húsadal og nú er í gangi hönnunarsamkeppni um verkefnið sem er samstarfsverkefni Vina Þórsmerkur og Vegagerðarinnar. Markmiðið með gerð göngubrúarinnar er að auka öryggi og aðgengi að einum af vinsælustu ferðamannastöðum á landinu. Með aðkomu frá Emstruleið (F261) verður til ný aðkoma að Þórsmörk sem gerir fleirum kleift að njóta útivistar á Þórsmörk. Með göngubrú yfir Markarfljót við Húsadal verður til örugg og fljótleg rýmingar- og flóttaleið, til dæmis þegar miklir vatnavextir eru í öðrum ám á svæðinu. Með göngubrúnni opnast einnig nýjar gönguleiðir fyrir lengri og skemmri ferðir um þetta fjölbreytta landsvæði með tengingu við Tindfjallasvæðið sem og inn með Markarfljótsgljúfrum að vestanverðu, með því móti mun vaxandi ferðamennska dreifast á fleiri staði. Brúargerðin hefur verið fjármögnuð með styrkum frá Framkvæmdasjóði Ferðamannastaða, Ferðamálastofu, Skógrækt ríksins ásamt framlögum til Vegagerðarinnar í vegáætlun. Hönnunarsamkeppnin fór fram í opnu forvali sem lauk 13. júní og verða valin þrjú hönnunarteymi til að taka þátt í samkeppninni.

Viðhald girðinga er fastur liður í sunnlensku skógunum eins og annars staðar og unnið verður við slíkt á nokkrum skógræktarsvæðum í sumar, einkum í Þjórsárdal á Kirkjubæjarklaustri og Tumastöðum. Nú er líka unnið að því að endurskipuleggja hjólhýsasvæðið í Þjórsárdal og laga það að skipulagi sveitarfélagsins, lögum og reglum. Gera þarf nýja samninga við leigjendur og efla öryggismálin, svo sem með því að koma upp slökkvitækjum og sinuklöppum á svæðinu. Unnið er að breytingu á deiliskipulaginu á svæðinu en einnig er í vinnslu nýtt deiliskipulag fyrir Þórsmörk. 

Grisjun og grisjunarmagn

Í vor segir Hreinn að hafi verið grisjaðir um 600 m3 viðar í skógum Skógræktar ríkisins á Suðurlandi. Mest af því var selt til Elkem á Grundartanga en eitthvað unnið í kurl, arinvið og borðvið. Raunar hafi óvenjumikið magn verið afgreitt af borðviði í ýmsar pantanir. meðal annars voru afgreiddir bolir í bálskýli sem reist verður á Laugarvatni. Í haust verður haldið áfram að grisja og meðal annars er von á að grisjunarvél Kristjáns Más Magnússonar vinni að grisjun í Haukadalsskógi. Hreinn segir stefnt að því að ná út 400-500 m3 með grisjun í haust og mest af því verði tekið með skógarhöggsvélinni.

Skógarnir grænir og fallegir

„Þeir eru grænir og fallegir,“ segir Hreinn þegar hann er spurður hvernig sunnlensku skógarnir líti út þessa dagana. Mikill vöxtur hafi verið hvarvetna í rigningartíðinni undanfarið og mikil gróska í gróðri, til dæmis  á lítið grónum svæðum á Þjórsárdalssöndum. Eitthvað segir hann að hafi borið á birkikembu í birkiskógunum en í þessari gróðrartíð nái laufskrúðið fljótt að hylja brúnu laufin eftir birkikembuna. Alaskavíðir og aðrar víðitegundir voru töluvert maðkétnar fyrri part sumars en eru óðum að ná sér eftir að lirfurnar tóku að púpa sig. Hins vegar var veturinn erfiður sígrænu trjánum á Suðurlandi. Hreinn segir ekki ljóst nákvæmlega hvaða veðurfyrirbrigði hafi valdið barrskemmdum en hugsanlega hafi þarna verkað saman stormar, salt og frost.

Níu manns vinna hjá embætti skógarvarðarins á Suðurlandi í sumar auk verktaka sem taka að sér afmörkuð verkefni s.s. gróðursetningu, girðingaviðhald o.fl. Þá koma þrettán skógfræðinemar til starfa hjá embættinu í sumar, nokkra mánuði í einu hver þeirra og flestir frá Írlandi. Alls skila þeir um 2,5 ársverkum og munar um minna. Síðast en ekki síst verður að geta um 50 sjálfboðaliða sem dvelja 2-12 vikur hver við ýmis störf á Þórsmörk. Framlag þeirra verður samanlagt nálægt 250 vinnuvikum eða um 5 ársverk.

‚Embla' í uppeldi

Loks er vert að nefna að á Tumastöðum fer fram frærækt með úrvalsbirkinu ‚Emblu' sem er afrakstur af kynbótastarfi Gróðurbótafélagsins undir forystu Þorsteins Tómassonar erfðafræðings. Ekki þarf að efast um að þessi tré verði til prýði í sunnlensku skógunum á komandi árum enda er Embla beinvaxin, vex vel og fær hvítan og fallegan börk.



Texti: Pétur Halldórsson
Myndir: Hreinn Óskarsson