Skógardagur var haldinn á Vöglum í Fnjóskadal sunnudaginn 20. júlí í björtu og fallegu veðri og tæplega 20 stiga hita. Sýnd var grisjunarvél að störfum og vakti mikla athygli og hrifningu gesta sem voru nokkuð á annað hundrað talsins. Einnig var fræframleiðslan í fræhöllinni á Vöglum kynnt og eldiviðarframleiðslan.
Miklar breytingar eiga sér nú stað í gróðurfari landsins vegna hlýnunar loftslags. Fyrirhuguð nýskógrækt gæti uppfyllt fjórðung af skuldbindingum Íslands í loftslagsmálum fram til 2020. Þetta kom fram í spjalli við Brynhildi Bjarnadóttur, doktor í skógvistfræði og lektor við Háskólann á Akureyri, í þættinum Sjónmáli á Rás 1.
Aðalsteinn Sigurgeirsson, forstöðumaður Rannsóknastöðvar skógræktar, Mógilsá, ræddi um möguleikana á eikarskógrækt á Íslandi og mikinn trjávöxt það sem af er sumri í tveimur fréttum sem sendar voru út á Stöð 2 um helgina.
Lerkikvæmi frá svæðum þar sem ríkir meginlandsloftslag líða fyrir hlýnandi loftslag hér á landi. Dæmi um þetta er kvæmið Tuva sem gjarnan byrjar að vaxa í hlýindaköflum á vetrum, kelur svo í vorfrostum og verður viðkvæmt fyrir sveppasjúkdómum. Rétt væri að stytta vaxtarlotu þessara skóga og rækta aðrar tegundir í staðinn, segir Þröstur Eysteinsson, sviðstjóri þjóðskóganna.
Í könnun sem gerð var meðal sveitarfélaga, hagsmunaaðila og stofnana kemur fram að togstreita sé algeng milli skógræktarmanna og búfjáreigenda í dreifbýli þar sem lausaganga búfjár er heimil. Þetta er meðal þess sem finna má í allgóðu yfirliti um skógrækt í áfangaskýrslu starfshóps um undirbúning skipulags landnotkunar í dreifbýli sem skilað hefur verið til umhverfis- og auðlindaráðherra.