Nýta má lerkið sem skjól fyrir viðkvæmari tegundir en fella það svo

Almennt er góður vöxtur á trjám austur á Héraði eins og víðast hvar á landinu. Fölur litur sem kom sums staðar á lerki eftir næturfrost í maí er nú að mestu horfinn í hlýindunum og trén geisla af hreysti.  Á þessu góða ástandi eru þó einstaka undantekningar. Til er að lerki séhreinlega að drepast úr hita, ekki þó sumarhita. Einna mest áberandi eru skemmdirnar í lerkiteig einum á Buðlungavöllum, sem er innsti hluti Hallormsstaðaskógar. Þar er lerkið af kvæminu Tuva.

Sjálfstjórnarlýðveldið Tuva er syðst í Síberíu og liggur að Mongólíu. Sumt er líkt með Íslandi og Tuva, landstærð svipuð og þar búa rúmlega 300.000 manns. Annað er ólíkt. Þar sem Ísland er umlukið úthafi er í Tuva sá punktur á hnettinum sem er lengst frá sjó. Lerki frá Tuva er því aðlagað miklu meginlandsloftslagi. Þegar hér koma umtalsverð hlýindi að vetrarlagi, eins og gerist æ oftar, tekur lerkið frá Tuva til við að vaxa en verður svo fyrir frostum á útmánuðum. Það veldur streitu sem gerir trén viðkvæm fyrir sveppsjúkdómum á borð við lerkiátu og barrviðarátu. Ekki er búið að greina sjúkdóminn sem er að granda lerkinu á Buðlungavöllum en það er í raun aðeins akademísk spurning. Grunnorsökin er hlýnandi loftslag.

Skógrækt þarf að laga að þeim loftslagsbreytingum sem orðið hafa og fyrirséðar eru, m.a. með vali á tegundum og kvæmum sem aðlöguð eru mildu, hafrænu loftslagi. Unnið er að því og sem dæmi er löngu hætt að gróðursetja lerki frá Síberíu. Einnig ætti yfirleitt að forðast efnivið frá svæðum þar sem er meginlandsloftslai og svæðum norðar en Ísland.

En Síberíulerki gróðursett á árum áður prýðir enn landið þótt sögnin að „prýða“ sé sennilega ekki rétta orðið. Hvað skal gera með það? Lítil ástæða er til að ætla að það braggist úr þessu og því er ekkert unnið með því að bíða eftir að 80 ára lota renni sitt skeið. Betra er að stytta lotuna, fella skóginn, selja viðinn sem kurl og byrja upp á nýtt. Áður en lerkið er fellt mætti nota tækifærið og gróðursetja tegundir í skjóli þess sem oft eiga erfitt uppdráttar á berangri, t.d. sitkagreni, rauðgreni, fjallaþin (til jólatrjáaræktar), marþöll, degli, alaskasýpris, risalifvið og eðallauftre á borð við hlyn og eik.

Texti og myndir: Þröstur Eysteinsson