Rætt við forstöðumanninn á Mógilsá í tveimur sjónvarpsfréttum

Aðalsteinn Sigurgeirsson, forstöðumaður Rannsóknastöðvar skógræktar, Mógilsá, ræddi um möguleikana á eikarskógrækt á Íslandi og mikinn trjávöxt það sem af er sumri í tveimur fréttum sem sendar voru út á Stöð 2 um helgina.

Mikill trjávöxtur í sumar

Magnús Hlynur Heiðarsson fréttamaður sýndi myndir af miklum vexti víðitegunda á Mógilsá og sagði algengt að sprotar hefðu þegar náð hálfs metra vexti í sumar eða meira. Aðalsteinn sagði að sumarið hefði byrjað snemma og verið jöfn og þétt úrkoma sem trjánum líkaði vel öfugt við mannfólkið. Í samhengi við mikinn trjávöxt nefndi Aðalsteinn að kolefnisbinding í íslenskum skógum væri nú talsvert meiri en gert hefði verið ráð fyrir í spám sem byggðust á trjávexti á landinu á árabilinu 1960-2000. Þær tölur sem borist hefðu síðustu misserin sýndu að skógarnir yxu nú umtalsvert meira en spáð hefði verið fyrir um og þar með byndist mun meira kolefni líka.

Tilraunaræktun á eik

Í annarri sjónvarpsfrétt fjallaði Magnús Hlynur um tilraunaræktun á eik sem nú fer fram í 500 fermetra gróðurhúsi á Mógilsá. Þar er á ferðinni Trjáræktarklúbburinn sem í er hópur áhugamanna en Aðalsteinn kom með um 30 kíló af eik frá Þýskalandi sem nú eru sprottnar upp af efnilegar plöntur af tegundunum stilkeik, vetrareik og rauðeik. Aðalsteinn segir að þessar tegundir hafi lofað góðu hérlendis og nú sé Trjáræktarlúbburinn að gera frekari tilraunir með þær. Efniviðurinn er úr fjöllum Mið-Þýskalands og víðar. Ísland sé smám saman að færast inn í útbreiðslusvæði eikar og mestallt landið verði væntanlega komið inn í það útbreiðslusvæði áður en öldin er liðin. Kjörlendi eikarinnar séu svæði þar sem hlýjast sé á sumrin og mildast á veturna, sérstaklega á Suður- og Vesturlandi, en Aðalsteinn nefnir að hæsta eik landsins sé stilkeik sem vaxið hafi á Akureyri í hartnær 35 ár og sé nú trúlega hæsta eikartré landsins, um 8 metra há. Ýmis dæmi séu um falleg eikartré hérlendis en engir eikarskógar enn sem komið er.

Mynd af eikarlaufum og akörnum: Nick Schaforostoff