Rætt við Brynhildi Bjarnadóttur skógvistfræðing í Sjónmáli á Rás 1

Miklar breytingar eiga sér nú stað í gróðurfari landsins vegna hlýnunar loftslags. Brynhildur Bjarnadóttir doktor í skógvistfræði og lektor við Háskólann á Akureyri segir í þættinum Sjónmáli á Rás 1, að á síðustu 10-15 árum hafi vaxtartíminn verið að lengjast og allur gróður átt auðveldara uppdráttar. Dæmi um þetta sjáist til dæmis í viðgangi birkis sem er mjög víða að koma upp sjálfsprottið og sjálfssáið.

Aukin gróðursæld hjálpar upp á sakirnar í samningsbundnum skuldbindingum Íslands í loftslagsmálum, því aukinn gróður þýðir aukna bindingu kolefnis úr andrúmsloftinu. Rannsóknir Brynhildar benda til þess að það taki t.d. ekki nema 10 ár fyrir nýjan lerkiskóg að skila meiri bindingu en óbreytt landslag. Miðað við núverandi gróðursetningarhraða er reiknað með að u.þ.b. fjórðungi af þeim samdrætti í útblæstri gróðurhúsalofttegunda, sem við höfum skuldbundið okkur til að ná fyrir árið 2020, megi ná með nýskógrækt.

Brynhildur segir okkur búa vel að því leyti að við getum nýtt okkur margar leiðir í kolefnisbindingu, aukna skógrækt, endurheimt votlendis og aukna landgræðslu. Hún segir að við ættum að nýta allar þessar leiðir en ekki einblína á einhverja eina þeirra.