Nýlega er búið að grisja í þrítugum lerkireit í þjóðskóginum Höfða á Héraði. Var það verktakafyrirtækið 7, 9, 13 ehf. sem sá um verkið og gerði það í alla staði vel með sinni skógarhöggsvél og útkeyrsluvél. Skógurinn var nokkuð þéttur fyrir grisjun og var rúmur helmingur trjánna felldur, enda þurfa trén sem eftir standa nægt rými til að halda vexti áfram.
Loftslagssjóður hefur úthlutað rúmum fjórum milljónum króna til nýsköpunarverkefnis sem Skógræktin tekur þátt í. Þróuð verður aðferð til að nýta íslenskan jarðvarma til að þurrka timbur á hagkvæman og umhverfisvænan máta. Með þessu gæti íslenskt timbur orðið samkeppnishæfara og kolefnisspor framleiðslunnar eitt hið minnsta í heiminum.
Uppgræðslusjóður Ölfuss hefur úthlutað ríflega 400.000 króna styrk til klippingar og stungu á græðlingum af ösp og víði á Hafnarsandi. Stungið verður um 5.000 græðlingum en að auki verður annað eins gróðursett af trjáplöntum ýmissa tegunda.
Í nýútkomnu tölublaði Rits Mógilsár er kynnt úttekt á kolefnisbindingu skóglendis á Drumboddsstöðum II í Biskupstungum. Skógurinn á jörðinni, sem er bæði náttúrulegt birki og ræktaður skógur, bindur árlega um 1.200 tonn af koltvísýringi og svipaðri bindingu er spáð á hverju ári næstu tíu árin.
„Áhrif nýskógræktar á jarðveg, kolefnisforða og líffræðilega fjölbreytni á Fljótsdalshéraði“ er heiti meistararitgerðar sem Julia C. Bos ver þriðjudaginn 23. mars í náttúru- og umhverfisfræði við deild náttúru og skógar í Landbúnaðarháskóla Íslands. Rannsakað var mólendi sem hafði breyst í skóglendi með sjálfsáningu birkis eða gróðursetningu lerkis.