Hluti af forsíðu 42. tölublaðs Rits Mógilsár
Hluti af forsíðu 42. tölublaðs Rits Mógilsár

Í nýútkomnu tölublaði Rits Mógilsár er kynnt úttekt á kolefnisbindingu skóglendis á Drumb­odds­stöðum II í Biskupstungum. Skógurinn á jörðinni, sem er bæði náttúrulegt birki og ræktaður skógur, bindur árlega um 1.200 tonn af koltvísýringi og svipaðri bindingu er spáð á hverju ári næstu tíu árin.

Arnór Snorrason, deildarstjóri loftslagsdeildar rannsóknasviðs Skógræktarinnar, og Björn Traustason, fag­stjóri landupplýsinga á loftslagsdeild, gerðu skýrsluna að beiðni Byko sem á jörðina Drumboddsstaði II. Úttektin var gerð sumarið og haustið 2020 með það að markmiði að meta með viðurkenndum og vís­inda­legum hætti kolefnisbindingu skóglendis á jörðinni.

Mynd 3 úr skýrslunni. Nettóbinding koldíoxíðs (CO2) í trjágróðri á flatareiningu í skilgreindum skógarflokkum á Drumboddsstöðum II. Myndin sýnir bindingu flokka og heildarbindingu svæðisins. Skekkjustikur sýna 95% vikmörkSumarið 2020 var skóglendið á Drumb­odds­stöðum kortlagt. Það var síðan flokkað í þrjá flokka og mælifletir lagðir tilviljanakennt út í hvern flokk. Út frá trjámælingum og land­gerðar­mati sem fram fór á mæliflötum haustið 2020 var lífmassavöxtur og þar af leiðandi kolefnisbinding trjágróðurs áætluð ásamt bindingu í jarðvegi og sópi.

Áætluð heildarbinding koldíoxíðs (CO2) á árinu 2020 í skóglendi Byko ehf. á Drumboddsstöðum II var samtals 1.200 tonn (± 360 tonn með 95% vikmörkum). Binding á mæliflötum í ræktaða skóginum reyndist mjög breytileg og skýrir það stærð vikmarkanna. Binding í náttúrulega birkiskóginum reyndist vera meiri en áætlað hafði verið í bráðabirgðamati sem gert var haustið 2019. Skipti þar mestu að trjávöxtur var meiri en landsmeðaltal, bæði í eldri birkiskóginum og nýgræðslunum sem bæst höfðu við frá 1988. Samtals var áætluð binding í náttúrulega birkinu metin 655 tonn CO2 árið 2020.

Skýrsluhöfundar spáðu fyrir bindingu fram til 2030 og gerðu þá ráð fyrir að ræktuðu skógarnir yrðu ekki grisjaðir á þeim tíma. Samkvæmt spánni verður binding mjög svipuð fram til 2030 og hún var 2020 eða að jafnaði 1.200 tonn CO2 á ári. Þó er merkjanleg örlítil bylgja, reyndar innan skekkju­marka, sem nær hámarki í 1.210 tonnum CO2 árið 2027 en er fallin aftur niður í 1.200 tonn árið 2030. Út frá þessum niðurstöðum má því áætla að uppsöfnuð binding skóglendisins á Drumboddsstöðum II næstu tíu árin (2021-2030) verði um 12.000 tonn CO2.

Sett á vef: Pétur Halldórsson