Asparstiklingar ræta sig vel með beinni stungu á sunnlenskum söndum þar sem er hlýtt og rakt. Ljósmy…
Asparstiklingar ræta sig vel með beinni stungu á sunnlenskum söndum þar sem er hlýtt og rakt. Ljósmynd: Hreinn Óskarsson

Uppgræðslusjóður Ölfuss hefur úthlutað ríflega 400.000 króna styrk til klippingar og stungu á græðlingum af ösp og víði á Hafnarsandi. Stungið verður um 5.000 græðlingum en að auki verður annað eins gróðursett af trjáplöntum ýmissa tegunda.

Asparstiklingar tilbúnir til stungu að vori. Ljósmynd: Hreinn ÓskarssonVerkefnið tengist Þorláksskógaverkefninu beint og snýr að því að nýta tré af ösp og víði sem vaxa vel og eru vel aðlagaðir aðstæðum á Hafnarsandi til græðlingatöku. Klipptir verða græðlingar af greinum trjáa á norðanverðum Hafnarsandi í mars árin 2021-2023 og þeim stungið síðla vors hvert ár þegar aðstæður eru bestar. Góð reynsla er af stungu græðlinga af ösp og víði á svæðinu og yrði þetta viðbót við annað starf á vegum Þorláksskóga. Töluvert er til af alaskaösp og víði sem nýta má til klippinga nyrst á Hafnarsandi. Gert er ráð fyrir að verktakar úr heimabyggð vinni verkið að miklu leyti undir leiðsögn verkefnisstjóra Þorláksskóga.

Einnig er gert ráð fyrir gróðursetningu um 5.000 plantna til viðbótar af öðrum trjátegundum sem verkefnið hefur til gróðursetningar á Hafnarsandi. Hnitaðir hafa verið reitir, um 13 ha að stærð hver, þar sem stefnt er að því að stinga og gróðursetja í árin 2021 til 2023. Svæðin eru talin hentug þar sem hægt er að nýta lúpínu sem þar vex til að fóstra græðlinga og trjáplöntur. Markmið verkefnisins er fjölþætt m.a. að koma upp útivistarskógi á Hafnarsandi, binda kolefni og koma í veg fyrir sandfok yfir byggðina í Þorlákshöfn. Ekki verður gróðursett þétt í svæðið enda bert helluhraun í hluta svæðisins.

Kostnaður við verkefnið er áætlaður rúmar 800.000 krónur og leggur Skógræktin til samsvarandi framlag á móti styrknum. Alls bárust átta umsóknir til Uppgræðslusjóðs Ölfuss að þessu sinni, samtals að upphæð 8.173.000 kr. Til úthlutunar voru 3.475.000 kr.

Texti: Pétur Halldórsson

Kort af áætluðum reitum á Hafnarsandi þar sem stungið verður aspar- og víðistiklingum ásamt því sem gróðursettar verða aðrar trjátegundir. Kort: Hreinn Óskarsson