Nýgrisjaður lerkiskógur á Höfða Héraði. Greinar á skógarbotni eftir grisjun eru ekki rusl heldur mik…
Nýgrisjaður lerkiskógur á Höfða Héraði. Greinar á skógarbotni eftir grisjun eru ekki rusl heldur mikilvægt fóður í næringarefnahringrás skógarins og til uppbyggingar jarðvegs. Ljósmynd: Þröstur Eysteinsson

Nýlega er búið að grisja í þrítugum lerkireit í þjóðskóginum Höfða á Héraði. Var það verktakafyrirtækið 7, 9, 13 ehf. sem sá um verkið og gerði það í alla staði vel með sinni skógarhöggsvél og útkeyrsluvél. Skógurinn var nokkuð þéttur fyrir grisjun og var rúmur helmingur trjánna felldur, enda þurfa trén sem eftir standa nægt rými til að halda vexti áfram.

Aðeins bolirnir voru keyrðir út, en allar greinar og toppar skildir eftir í skógarbotninum. Greinarnar voru látnar falla í brautirnar sem vélarnar óku um og hlífðu þannig botngróðrinum, jarðveginum og rótum trjánna. Toppar og enn meiri greinar liggja líka dreift um skógarbotninn.

Greinar lagðar í akstursleið skógarvélanna hlífa skógarbotninum og jarðveginum fyrir átroðningi vélanna. Greinarnar eru ótrúlega fljótar að brotna niður í skóginum. Ljósmynd: Þröstur EysteinssonEkki er gott að ganga um skóginn akkúrat núna í kjölfar grisjunar, því greinabeðjan er víða um 50 cm þykk. Sumum er í nöp við greinabeðjuna eftir grisjun, ekki aðeins út af erfiðleikum við að komast um heldur út af „sóðaskap“. Sumum finnst sóðalegt að sjá greinar liggjandi út um allt, vilja helst hafa skógarbotninn hreinan, og því leggja sumir á sig ómælda vinnu við að hreinsa til. Í því felst þó mikill misskilningur. Hugtakið „sóðalegt“ merkir alls ekki það sama úti í skógi eða inni í stofu. Ef þetta væri plast eða annað drasl væri það sóðalegt, en greinar eru ekki drasl, þær eru mikilvægur þáttur næringarefnahringrása.

Þetta mun lagast á fáum árum eftir því sem greinarnar grotna niður. Það gerist raunar á ótrúlega skömmum tíma. Við niðurbrotið losnar nokkur koltvísýringur út í andrúmsloftið en mikið kolefni og önnur næringarefni bætast líka við jarðveginn. Hann þykknar og verður frjósamari. Ekki veitir af, því lerkið var gróðursett í rýran og jarðgrunnan þursaskeggsmóa á sínum tíma. Í þessu felst góð meðferð skóga og alls enginn sóðaskapur.

Texti og myndir: Þröstur Eysteinsson