Hér koma nokkur orð um skógarfuru. Íslenska heitið skógarfura hæfir vel tegundinni sem hér er rætt um því hún er eitt helstu einkennistrjáa í skógum um stóran hluta Evrópu og norðanverðrar Asíu. Rétt eins og við tölum um dýr merkurinnar gætum við kannski talað um skógarfuru sem tré merkurinnar enda merkti orðið mörk skógur fyrrum. Skógarfura var vonarstjarna í skógrækt á Íslandi um miðbik síðustu aldar en reyndist vonarpeningur.
Fagnefnd Fagráðstefnu skógræktar sem fram fer á Ísafirði 29.-30. mars auglýsir eftir tillögum að erindum og veggspjöldum fyrir síðari dag ráðstefnunnar þar sem rými er fyrir fjölbreytta dagskrá um málefni á sviði skógfræði og skógtækni. Frestur til að skila tillögum að erindum er til 17. febrúar en fyrir veggspjöld er frestur til 10. mars.
Verið er að vinna spá um bindingu ræktaðra skóga og náttúrulegra birkiskóga á Íslandi. Hluti af þeirri vinnu felst í að greina ríkjandi trjátegundir í ræktuðum skógum, flatarmál og aldur þeirra, kolefnisbindingu og kolefnisforða. Þannig er hægt að framreikna bindingu í trjágróðri í ræktuðum skógum. Gögnin sem byggt er á eru úr landsskógarúttekt ræktaðra skóga frá árunum 2018 til 2022 en á þeim árum voru mældir 1.002 mælifletir í úrtaksmælineti Íslenskrar skógarúttektar.
Matvælaráðherra hefur birt í samráðsgátt stjórnvalda drög að frumvarpi til laga um sameiningu Skógræktarinnar og Landgræðslunnar. Lagt er til að ný stofnun heiti Land og skógur. Skila má inn umsögnum um drögin til 1. febrúar. Ef lög verða samþykkt tæki ný stofnun formlega til starfa um næstu áramót.
Þorbergur Hjalti Jónsson, skóghagfræðingur og sérfræðingur á rannsóknasviði Skógræktarinnar, er höfundur nýrrar greinar í Riti Mógilsár þar sem fjallað er um markaðsverð skógareignar. Þar ber hann saman sjö aðferðir til að meta markaðsverð á skógi í einkaeign á Stóra-Bretlandi. Í ljós kemur að svokölluð sjálfbærniaðferð reynist best til að gefa óskekkt virðismat og er mælt með henni við mat á markaðsverðmæti skóga á Íslandi.