Uppvaxandi lerki í eldri skógi. Ljósmynd: Pétur Halldórsson
Uppvaxandi lerki í eldri skógi. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Verið er að vinna spá um bindingu ræktaðra skóga og náttúrulegra birkiskóga á Íslandi. Hluti af þeirri vinnu felst í að greina ríkjandi trjátegundir í ræktuðum skógum, flatarmál og aldur þeirra, kolefnisbindingu og kolefnisforða. Þannig er hægt að framreikna bindingu í trjágróðri í ræktuðum skógum. Gögnin sem byggt er á eru úr landsskógarúttekt ræktaðra skóga frá árunum 2018 til 2022 en á þeim árum voru mældir 1.002 mælifletir í úrtaksmælineti Íslenskrar skógarúttektar.

Miðað er við lok árs 2020 sem er miðjuár mælingaráranna. Nettóflatarmál ræktaðra skóga var þá samkvæmt þessu mati 40.500 ha (± 2.000 (95% vikmörk)). Þegar átt er við nettóflatarmál er búið að draga frá öll svæði sem ekki eru vaxin trjágróðri, s.s. vegslóða, klapparholt, votlendisbletti og fleiri slík úrtök sem eru það lítil að flatamáli (undir 0,5 ha) að þau teljast innan brúttóflatarmáls skógræktar. Slík úrtök eru um 12% af brúttóflatarmáli ræktuðu skóganna.

Heildarflatarmálið skiptist þá niður á milli helstu trjátegunda eins og efri myndin hér fyrir neðan sýnir:

Flatarmál 40.500 haÞarna er flatarmál ilmbjarkar sem ríkjandi tegundar mest en þar á eftir kemur flatarmál rússa-/síberíulerkis. Með ríkjandi tegund er átt við þá tegund sem hefur mesta krónuþekju á hverjum mælifleti.

Samanlögð kolefnisbinding var metin 304 kílótonn CO2 (± 30 kt (95% vikmörk)) og skiptist hlutfallslega á milli ríkjandi trjátegunda eins og myndin hér fyrir neðan sýnir:

Kolefnisbinding 83.000 tonn (304.000 tonn CO2)Binding í rússa-/síberíulerkiskógum er langmest og eru hinar fjórar megintegundirnar hver um sig með einungis í kringum fjórðungsbindingu lerkisins.

Ef skoðuð er árleg CO2-binding og kolefnisforða í trjám á hektara kemur í ljós nokkuð óvænt að rússa-/síberíulerki hafði vinningin varðandi árlega bindingu en rauðgreni hefur mestan forða sem skýrist að hluta af því að meðalaldur rauðgrenisskóganna er mun meiri en hinna tegundanna. Meðalaldur er sýndur fyrir ofan súlu hverrar trjátegundar:Binding og forði á hektara

Meðalaldur hinna trjátegundanna er nokkuð jafn eða frá 19 til 23 ár sem er vel innan skekkjumarka. Flatarmálsveginn meðalaldur ræktaðra skóga var miðað við 2020 um 22 ár.

Skrifað 23. janúar 2023: Arnór Snorrason
Vinnsla fyrir vef: Pétur Halldórsson