Ekki var tekist á um afgreiðslu frumvarps um nýja skógræktarstofnun þegar málið var tekið til annarrar umræðu á Alþingi í gærkvöldi. Mælt var fyrir nefndaráliti með einni breytingartillögu sem snertir markmið um ræktun skógar á 5% láglendis. Málið bíður nú atkvæðagreiðslu á þinginu.
Nýta má timbur úr íslenskum skógum á nýstárlegan hátt með því að sjóða timbrið, eima það eða vinna efni úr öskunni af því. Þannig má skapa óvænt verðmæti, til dæmis úr víði sem annars er nær ekkert nýttur. SAM-félagið, samtök skapandi fólks á Austurlandi, er með vinnustofu á verk­stæði Skógarafurða í Fljótsdal í samstarfi við bandaríska hönnunarverkefnið De­sign­ers & Forests. Fjallað var um þetta í fréttum Sjónvarps og rætt við vöru­hönnun­ar­nema og prófessor í hönnun.
Þessi dægrin er unnið að gróðursetningu í Hekluskóga. Fram kemur í nýrri frétt á vef verkefnisins að gróðursettar verði 200 þúsund birkiplöntur þetta vorið. Dreift hafi verið 220 tonnum af kjötmjöli á Hekluskógasvæðinu í vor en tilbúnum áburði verði dreift yfir um 500 hektara lands á ofanverðu starfsvæðinu í júní.
Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis mælir með því að frumvarp umhverfisráðherra til laga um nýja skógræktarstofnun verði samþykkt. Nefndin gerir eina tillögu til breytingar á texta frumvarpsins. Ákvæði úr eldri lögum haldi sér í þeim nýju um að 5% láglendis undir 400 metrum yfir sjávarmáli verði klædd skógi.
Tíu manna lið starfsfólks Skógræktar ríkisins og landshlutaverkefna í skógrækt tekur þátt í hjólreiðakeppninni WOW Cyclothon sem fram fer dagana 15.-17. júní í sumar. Undirbúningur er í fullum gangi, liðsfólk hefur æft stíft undanfarnar vikur og í smíðum eru festingar á kerru fyrir reiðhjólin. Að sjálfsögðu er eingöngu notað íslenskt timbur við smíðina.