Blómstrandi víðir á vori. Mynd: Pétur Halldórsson.
Blómstrandi víðir á vori. Mynd: Pétur Halldórsson.

Lagafrumvarpið komið úr nefnd og er á dagskrá þingsins síðdegis

Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis mælir með því að frumvarp umhverfisráðherra til laga um nýja skógræktarstofnun verði samþykkt. Nefndin gerir eina tillögu til breytingar á texta frumvarpsins. Ákvæði úr eldri lögum haldi sér í þeim nýju um að 5% láglendis undir 400 metrum yfir sjávarmáli verði klædd skógi.

Þingfundur hefur verið boðaður í dag kl. 13.30. Fyrir fundinum liggja 23 mál og er frumvarp til laga um nýja skógræktar­stofn­un það fimmtánda í röðinni. Þingið kemst ekki alltaf yfir öll þau mál sem sett eru á dagskrá þingfunda þannig að ekki er alveg víst að umrætt mál komist til umræðu og afgreiðslu í dag. En ef svo fer að málið komist til umræðu er líklegt að bæði önnur og þriðja umræða fari fram á fundinum og þar með að það verði borið upp til atkvæðagreiðslu. Málið gæti því orðið að lögum í dag enda ekki að sjá að ágreiningur sé um það meðal þingmanna.

Umhverfis- og samgöngunefnd hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sigríði Svönu Helgadóttur og Björn Helga Barkarson frá umhverfis- og auðlindaráðuneyti, Þröst Eysteinsson frá Skógrækt ríkisins og Sigríði Júlíu Brynleifs­dótt­ur frá landshlutaverkefnum í skógrækt og Hrönn Guðmundsdóttur frá Landssamtökum skógareigenda. Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Bændasamtökum Íslands, Félagi skógarbænda á Austurlandi, Félagi skógarbænda á Suðurlandi, Landgræðslu ríkisins, Landssamtökum skógareigenda, Landvernd, Náttúrufræðistofnun Íslands, Þor­steini Péturssyni og Guðmundi Aðalsteinssyni og sameiginleg umsögn frá Skógrækt ríkisins, Héraðs- og Austur­lands­skóg­um, Suðurlandsskógum, Skjólskógum og Vesturlandsskógum.

Skemmst er frá því að segja að nefndin mælir með því að frumvarpið verði samþykkt á Alþingi en leggur þó fram eina breytingartillögu. Í ljósi umsagna bendir nefndin á að í 3. grein frumvarpsins er lögð til breyting á 1. gr. laga um landshlutaverkefni í skógrækt, nr. 95/2006. Síðari málsliður greinarinnar hafi þar fallið brott án þess að það sé tilgangur frumvarpsins að fella markmið um ræktun skóga á ákveðnum hluta landsins brott. Nefndin leggur því til breytingu til að markmiðin komi áfram fram í lögunum.  Við efnismálsgrein. 3. gr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Í hverjum landshluta skal stefnt að ræktun skóga á að minnsta kosti 5% af flatarmáli láglendis neðan við 400 m yfir sjávarmáli.

Texti og mynd: Pétur Halldórsson