Gróðursetning á Hekluskógasvæðinu. Um 200.000 birkiplöntur verða gróðursettar á vegum Hekluskóga í v…
Gróðursetning á Hekluskógasvæðinu. Um 200.000 birkiplöntur verða gróðursettar á vegum Hekluskóga í vor. Mynd: Hreinn Óskarsson.

Birkið farið að sá sér út í elstu reitunum

Þessi dægrin er unnið að gróðursetningu í Hekluskóga. Fram kemur í nýrri frétt á vef verkefnisins að gróðursettar verði 200 þúsund birkiplöntur þetta vorið. Dreift hafi verið 220 tonnum af kjötmjöli á Hekluskógasvæðinu í vor en tilbúnum áburði verði dreift yfir um 500 hektara lands á ofanverðu starfsvæðinu í júní.

Trjáplönturnar sem gróðursettar verða í sumar á starfsvæði Hekluskóga eru aldar upp í gróðrarstöðinni Kvistum í Reykholti í Biskupstungum. Þátttakendur í Hekluskógum hafa fengið úthlutað plöntum í sín lönd eins og undanfarin ár og fjöldi hópa, bæði sjálfboðaliðar og íþróttahópar í fjáröflun, hefur unnið að gróðursetningu. Verktakar hafa einnig unnið að gróðursetningu og verða við störf fram í júní þar til vorgróðursetningu er lokið.


Kjötmjölsdreifingu lauk í byrjun maí og var þessum 220 tonnum dreift í Þjórsárdal og sunnan Sultartangavirkjunar. Tilbúnum áburði verður sem fyrr segir dreift yfir um 500 ha lands í júní á ofanverðu starfsvæðinu, bæði yfir eldri birkireiti og land sem er orðið hálfgróið og mun taka vel við áburðargjöfinni.

Töluverð fræmyndun er á birki á svæðinu, segir jafnframt í frétt Hekluskóga. Þegar megi sjá mikið af reklum á trjám sem gróðursett voru fyrir nokkrum árum, árin 2008-2010, í reitum víða um svæðið. Ljóst sé að elstu reitirnir fari nú að sá sér út og innan fárra ára muni fræplöntur fara að sjást í nágrenni elstu reitanna þar sem skilyrði eru góð. Það er einmitt hugsunin með þeim aðferðum sem beitt er við skóggræðsluna í nágrenni Heklu að þeir birkireitir sem gróðursett er í sái sér út og smám saman fyllist svæðið af birki. Skógivaxið land þolir töluvert öskufall enda standa trén upp úr öskunni og lifa áfram þótt lággróður geti farið í kaf og kafnað.

Á vef Hekluskóga eru þakkir færðar öllum þeim sem unnið hafa með verkefninu að framkvæmdum þetta vorið sem og fyrri ár.

Meðfylgjandi myndir tók Hreinn Óskarsson, skógarvörður á Suðurlandi og framkvæmdastjóri Hekluskóga. Fleiri myndir og nánari upplýsingar um verkefnið er að finna á vefnum hekluskogar.is.

Texti: Pétur Halldórsson