Íslenskur rauðgreniskógur.
Íslenskur rauðgreniskógur.

Engin átök um málið sem nú bíður atkvæðagreiðslu

Ekki var tekist á um afgreiðslu frumvarps um nýja skógræktarstofnun þegar málið var tekið til annarrar umræðu á Alþingi í gær­kvöldi. Mælt var fyrir nefndaráliti með einni breytingartillögu sem snertir markmið um ræktun skógar á 5% láglendis. Málið bíður nú atkvæðagreiðslu á þinginu.

Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Fram­sóknar­flokks­ins og formaður umhverfis- og samgöngunefndar, mælti fyrir nefndaráliti þar sem lögð var til sú viðbót við frumvarpið að eldra markmið um ræktun skógar á fimm prósentum láglendis undir 400 metra hæð yfir sjó yrði haft með í lagatextanum. Til máls tóku einnig Líneik Anna Sævars­dótt­ir, þingmaður framsóknarmanna, og Bjarkey Ólsen Gunnarsdóttir, þing­mað­ur vinstri grænna, og reifuðu samráð við skógarbændur sem Höskuldur sagði í andsvari að áhersla væri lögð á.

Við lok umræðunnar var málinu vísað til atkvæðagreiðslu. Tveir þingfundir eru nú eftir áður en gert verður þinghlé vegna forsetakosninga. Fundur er boðaður á Alþingi kl. 15 í dag, miðvikudag, og aftur kl. 10.30 í fyrramálið.

Umræðuna má sjá og heyra á vef Alþingis.

Texti og mynd: Pétur Halldórsson