Senn líður að því að stýrihópur um sameiningu skógræktarstofnana ríkisins ljúki störfum. Á fundi hópsins á mánudag var unnið að því að slípa þá tillögu að skipuriti nýrrar skógræktarstofnunar. Niðurstöður viðtala Capacent við starfsfólkið sýna að það vill að boðleiðir verði stuttar í nýrri stofnun og samvinna auðveld óháð sviðum og deildum.
Norðurlandsskógar héldu í síðustu viku námskeið fyrir starfsfólk allra landshlutaverkefnanna í skógrækt. Farið var yfir þær aðferðir sem þróaðar hafa verið til mats á gæðum og árangri í skógum bænda.
Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, mælti fyrir frumvarpi um nýja skógræktarstofnun á Alþingi í gær. Mikil eining virðist vera um málið á þinginu, ef marka má þessa fyrstu umræðu, og var að heyra á þeim fulltrúum stjórnarandstöðunnar sem til máls tóku að þeir myndu styðja málið heils hugar.
Flatarmál ræktaðra skóga er mest á Suðurlandi. Þar er tæpur þriðjungur allra ræktaðra skóga á landinu. Hlutfall ræktaðra skóga af flatarmáli viðkomandi landshluta er þó hæst á Austurlandi og ef aðeins er litið er litið til láglendis neðan 400 metra yfir sjó er skóglendið mest á Vesturlandi. Mesta flatarmál skógar í einstöku sveitarfélagi er á Fljótsdalshéraði. Allar þessar upplýsingar er að finna í nýuppfærðri skóglendisvefsjá á vef Skógræktar ríkisins.
Níutíu ár eru um þessar mundir frá því að kjarrlendi í Fjallshnjúk í Aðaldal í Suður-Þingeyjarsýslu var friðað með öllu. Þar hefur síðan verið skógrækt og er bændaskógurinn á Ytra-Fjalli sá fyrsti í sýslunni. Landið tók miklum breytingum með friðun, að sögn Indriða Ketilssonar, bónda á Ytra-Fjalli, en hann segir mikið verk að grisja í stórri hlíð. Rætt er við Indriða í Morgunblaðinu í dag.