Ilmreynir laufgast. Mynd: Pétur Halldórsson
Ilmreynir laufgast. Mynd: Pétur Halldórsson

Samstaða virðist um málið meðal þingmanna

Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, mælti fyrir frumvarpi um nýja skógræktarstofnun á Alþingi í gær. Mikil eining virðist vera um málið á þinginu, ef marka má þessa fyrstu umræðu, og var að heyra á þeim fulltrúum stjórnar­andstöð­unnar sem til máls tóku að þeir myndu styðja málið heils hugar.

Ráðherra nefndi í ávarpi sínu að umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefði á undanförnum misserum haft til skoðunar ýmsar sviðs­myndir um sameiningu eða aukið samstarf stofnana ráðuneytisins. Hún rakti þá vinnu sem starfshópur hóf að vinna í júní 2015 að kostum og göllum þess að sameina í eina nýja stofnun Vesturlandsskóga, Skjólskóga á Vestfjörðum, Norðurlands­skóga, Héraðs- og Austurlandsskóga, Suðurlandsskóga og Skógrækt ríkisins, auk umsjónar með Hekluskógum. Niðurstaðan hefði verið sú, m.a. með samráði við Landssamtök skógareigenda og Skógræktarfélag Íslands, að sam­einingin væri æskileg og skapaði tækifæri fyrir framþróun og eflingu skógræktar í landinu.

Þá rakti ráðherra hvernig unnið hefði verið að málinu með það að markmiði að um það gæti náðst víðtæk sátt. Mynd­aður hefði verið stýrihópur undir stjórn skógræktarstjóra með fulltrúa allra stofnananna sem meiningin væri að sam­eina ásamt fulltrúa ráðuneytisins. Stýrihópurinn hefði unnið að málinu samhliða vinnu ráðuneytisins að frumvarpi um nýja stofnun.

Þegar Sigrún Magnúsdóttir hafði mælt fyrir frumvarpinu tók Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður framsóknarmanna, til máls. Líneik fór fyrir starfshópnum sem undirbjó sameiningarstarfið og í máli sínu spurði hún ráðherra hvort ekki stæði til að endurskoða alla löggjöf um skógrækt á Íslandi. Lög um skógrækt væru komin til ára sinna og mikilvægt að endurskoða þau til að framþróun í skógrækt gæti haldið markvisst áfram. Ráðherra sagðist geta fullvissað þing­manninn um að sú vinna væri þegar hafin í ráðuneytinu. Líneik Anna tók aftur til máls og fagnaði því að vinna að nýrri löggjöf væri hafin en sagðist telja mikilvægt að um leið yrði litið til þess að samhæfa markmið á víðara sviði svo sem í skógrækt, landgræðslu og náttúruvernd.

Til máls tók líka Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður framsóknarmanna, sem taldi málið jákvætt skref sem hefði í för með sér betri stjórnun og nýtingu á fé. Einnig yrði slagkraftur greinarinnar meiri með sameinaðri stofnun. Þorsteinn vísaði til fyrstu samninga sem gerðir voru við bændur um skógrækt. Markmið þeirra hefði verið að gera bændum kleift að taka upp nýja búgrein. Hann hvatti til þess að með þessari breytingu myndu menn gaumgæfa betur þann þátt sem sneri að lögbýlum í byggð.frekar en stuðning við skógrækt frístundabænda eða hlutafélaga.

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður vinstri grænna, sagðist hafa fylgst með málinu og undirbúningi þess. Tekist hefði að vinna þannig að málinu að í kringum það væri nú gott andrúmsloft. Honum þætti tillaga að heiti nýrrar stofnunar góð, Skógræktin, en sameining stofnana hefði gjarnan strandað með ósamkomulagi um slíkt. Sömuleiðis taldi hann gott að höfuðstöðvar nýrrar stofnunar skyldu verða á Fljótsdalshéraði. Steingrímur sagðist sjá að með skógrækt væri að verða til ný auðlind í landinu og það væri vel. Jafnframt þyrfti þó að virða önnur sjónarmið, til dæmis hvar skógrækt ætti við og hvar ekki. Einnig kallaði hann eftir því að menn færu að taka til hendinni í aðgerðum gegn loftslagsbreytingum í samræmi við Parísarsamkomulagið. Loks fagnaði hann því að við þessa sameiningu væri mjög vel hugað vel að réttindum og skyldum starfsmanna þeirra stofnana sem sameinaðar verða.

Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, tók líka til máls og sagði að þetta væri hin notalegasta umræða. Hann hrósaði Líneik Önnu Sævarsdóttur fyrir vaskleik við undirbúning málsins og sagðist tala fyrir munn landbúnaðararms Samfylkingarinnar sem myndi styðja þetta frumvarp af heilum hug. Hann játaði að fyrrum hefði hann ekki talið að eftir miklu væri að slægjast í skógrækt á Íslandi en nú hefði hann aflað sér nýrrar þekkingar. Ísland væri ekki eina norðlæga landið sem hefði verið án skógar. Skotland og Írland hefðu verið á svipuðu stigi skógar­eyðingar og Ísland en á 90-100 árum hefðu verið ræktaðir upp verðmætir skógar þar. Það sama væri hægt að gera á Íslandi. Þar þyrfti tvennt að koma til, ríkisstuðningur meðan greinin væri að staulast af stað og öflugar rannsóknir. Nú þegar væru menn raunar farnir að sjá árangur hér og tala um skógarauðlind sem myndi skila miklu í þjóðarbúið á komandi áratugum. Össur nefndi líka þann mikilvæga þátt að skógrækt skyti stoðum undir gisnar byggðir í sveitum landsins.

Loks tók Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, til máls á ný og fagnaði því hve jákvæð umræðan hefði verið um málið. Hún upplýsti meðal annars um að í síðustu viku hefði stjórn Landssamtaka sauðfjárbænda komið á fund í ráðuneytinu til að ræða eflingu skógræktar á sauðfjárbýlum.

Frumvarpið fer nú til annarrar umræðu í þinginu og til umfjöllunar í umhverfis- og samgöngunefnd.

Hér er hlekkur á upptöku af umræðunni á Alþingi:

Ný skógræktarstofnun
672. mál á 107. fundi, 145. löggjafarþingi, 03.05.2016

Texti: Pétur Halldórsson