Hér velta skógfræðingarnir fyrir sér hvers vegna þessi unga stafafuruplanta drapst. Ástæðurnar reynd…
Hér velta skógfræðingarnir fyrir sér hvers vegna þessi unga stafafuruplanta drapst. Ástæðurnar reyndust vera nokkrar. Hringrót benti til að hún hefði verið of lengi í bakkanum og merki voru um að ranabjalla hefði nagað rótarhálsinn og ranabjöllulirfur ræturnar. Á myndinni lengst til vinstri glittir í Ólöfu Sigurbjartsdóttur, Héraðs- og Austurlandsskógum. Þá er Böðvar Guðmundsson Suðurlandsskógum, Borja Alcober Héraðs- og Austurlandsskógum, Hraundís Guðmundsdóttir Vesturlandsskógum, Rakel Jónsdóttir Norðurlandsskógum, Arnlín Óladóttir, Skjólskógum á Vestfjörðum, og Ellert Arnar Marísson Vesturlandsskógum.

Vel heppnað námskeið hjá Norðurlandsskógum

Norðurlandsskógar héldu í síðustu viku námskeið fyrir starfsfólk allra landshluta­verk­efn­anna í skógrækt. Farið var yfir þær aðferðir sem þróaðar hafa verið til mats á gæðum og árangri í skógum bænda.

Tilgangur námskeiðsins var meðal annars að samræma þær aðferðir sem viðhafðar eru í landshlutaverkefnum í skógrækt. Gæða- og árangursmat er mikilvægur þátt­ur í starfseminni og forsenda fyrir því að það fé sem lagt er til skógræktar á lög­býl­um nýtist sem best og að upp vaxi sem bestir og verðmætastir skógar. Undanfarin ár hafa Norðurlands­skóg­ar haft forystu um að þróa þetta gæða- og árangursmat.

Nær allir starfsmenn lands­hluta­verk­efn­anna tóku þátt í nám­skeið­inu sem haldið var á Akureyri og Vöglum í Fnjóska­dal. Haldið var í vett­vangs­ferð­ir á skóg­rækt­ar­svæði Skógræktarfélags Eyfirðinga á Laugalandi á Þelamörk þar sem farið var yfir verklega þætti, aðferðir við að meta gæði og árangur gróðursetninga, ástæður affalla á skógar­plönt­um og fleira. Fjallað var um uppsetningu mæliflata sem notaðir eru til langtímamælinga og farið yfir aðferðir við slíkar mælingar.

Þátttakendur kváðust mjög ánægðir með námskeiðið og töluðu um að samræming vinnubragða væri mjög mikilvæg, ekki síst nú þegar stefnir í að landshlutaverkefnin sameinist ásamt Skógrækt ríkisins í nýja stofnun. Því má segja að námskeiðið hafi verið óbeinn liður í sameiningarferlinu.


Á vettvangi í Laugalandsskógi á Þelamörk. Þarna voru settir upp mælifletir
og sýndar aðferðir við úttekt þeirra. Metin voru gæði gróðursetninga,
lifun plantna og fleira.

Texti og myndir: Pétur Halldórsson