Reyniviður að springa út við Gunnarsbraut í Reykjavík mánudaginn 9. maí 2016.
Reyniviður að springa út við Gunnarsbraut í Reykjavík mánudaginn 9. maí 2016.

Starfsfólkið vill stuttar boðleiðir

Senn líður að því að stýrihópur um sameiningu skógræktarstofnana ríkisins ljúki störfum. Á fundi hópsins á mánudag var unnið að því að slípa þá tillögu að skipuriti nýrrar skógræktarstofnunar sem fyrir liggur.

Arnar Jónsson, ráðgjafi hjá Capacent, sagði á fundinum frá úrvinnslu um 70 einkaviðtala sem tekin voru við starfsfólk stofnananna vegna undirbúnings sameiningarinnar. Mikil vinna hefði verið að fara yfir öll viðtölin og greina þá þætti sem helst hefðu verið áberandi í viðhorfum fólks. Þar hefði þó sést skýr lína um að ný stofnun þyrfti að vera einföld að gerð, gagnsæ og boðleiðir stuttar. Starfsfólkið vænti þess að samvinna um ýmis verkefni yrði auðveld, óháð sviðum og deildum.

Þá talaði Arnar einnig um að það hefði verið áberandi í starfsmannaviðtölunum að fólki þætti sameiningarferlið ganga vel en að þeirri vinnu mætti ekki ljúka við sameininguna. Halda þyrfti áfram upplýsingamiðlun­inni og samræðunni að lokinni sameiningu.

Á fundi stýrihópsins á mánudag var unnið áfram með áherslur nýrrar stofnunar út frá niðurstöðum þeirrar greiningarvinnu sem unnin hefur verið síðustu mánuði með virkri og lýðræðislegri þátttöku starfsfólksins. Á næsta fundi þar á undan höfðu verið lagðar fram nokkrar hugmyndir að skipuriti fyrir hina nýju stofnun og kostir þeirra og gallar vegnir og metnir. Nú liggur fyrir nær fullmótuð tillaga að skipuriti sem lögð var fram og fínslípuð á fundinum á mánudag. Ekki er unnt að greina frá tillögunni frekar fyrr en hún hefur verið kynnt ráðherra en það verður væntanlega gert innan skamms..

Sem kunnugt er hefur frumvarp til laga um nýja skógræktarstofnun nú verið lagt fram á Alþingi. Fyrstu umræðu er lokið en málið er nú til umfjöllunar hjá umhverfis- og samgöngunefnd og frestur til að gera athugasemdir rennur út 18. maí. Ef svo fer sem horfir að ekki verði ágreiningur um málið í meðförum Alþingis má telja góðar líkur á því að það verði afgreitt áður en þingið tekur sér hlé frá störfum vegna forsetakosninga í júní. Þá getur ný skógræktarstofnun tekið til starfa 1. júlí í sumar.

Texti og mynd: Pétur Halldórsson