Fyrsta bændaskógræktin í Suður-Þingeyjarsýslu hófst með friðun fyrir 90 árum

Níutíu ár eru um þessar mundir frá því að kjarrlendi í Fjallshnjúk í Aðaldal í Suður-Þingeyjarsýslu var friðað með öllu. Þar hefur síðan verið skógrækt og er bændaskógurinn á Ytra-Fjalli sá fyrsti í sýslunni. Landið tók miklum breytingum með friðun, að sögn Indriða Ketilssonar, bónda á Ytra-Fjalli, en hann segir mikið verk að grisja í stórri hlíð.

Alfriðunin 1926 var mikil framkvæmd, sem var þökkuð þeim Stefáni Kristjánssyni skógarverði á Vöglum og Kofoed-Hansen, þáverandi skógræktarstjóra ríkisins. Tilgangur friðunarinnar var einkum sá að vernda skógarkjarrið og gefa því skilyrði til vaxtar og viðhalds.

Atil Vigfússon, fréttaritari Morgunblaðsins, ræddi við Indriða og birtist viðtalið í Morgunblaðinu í dag. Það er á þessa leið:

„Ég fylgdi föður mínum og áhugamál hans urðu að mínum. Þetta var hugsjón hans og svæðið var alfriðað 1926 og má því teljast fyrsti bændaskógurinn í Suður-Þingeyjarsýslu. Barrviðirnir eru orðnir gróskumiklir og stærstu trén eru 10-12 metra há.“ Þetta segir Indriði Ketilsson, bóndi áYtra-Fjalli í Aðaldal, nú þegar 90 ár eru frá því að 60 hektara svæði var tekið til skógræktar í austanverðum Fjallshnjúk.

„Í seinni tíð hefur skógurinn orðið að hugsa að mestu um sig sjálfur, en hann fór illa af birkifeta fyrir nokkrum árum. Þá hefur skógurinn farið illa í haustveðrum oftar en einu sinni og má í því sambandi nefna haustið 2012, þegar mikið brotnaði af trjám í fjárskaðaveðrunum í byrjun september. Þá hlóðst mikill bleytusnjór í trén og þau brotnuðu í stórum stíl. Haustið 1995 var mjög slæmt veður í október, sem einnig fór mjög illa með skóginn, þannig að hann hefur orðið fyrir áföllum,“ segir Indriði, en hann hefur alla tíð haft mikinn áhuga á skógrækt og það hefur verið hluti af hans lífsverkefni.

Nú þegar hann er orðinn rúmlega áttræður segist hann geta minna gert í skóginum, en áhuginn er enn fyrir hendi.

Skógarkjarrið fékk skilyrði til vaxtar og viðhalds

Landið á þessu svæði tók miklum breytingum með friðuninni, en það var faðir Indriða, Ketill Indriðason (1896-1971), sem hafði mikinn áhuga á því að friða landið, allt frá barnæsku. Honum var þungt í brjósti að sjá skóglausar hlíðarnar í Aðaldal og bar þær saman við það sem hann gerði sér í hugarlund að áður hefði verið. Honum var minnistæð frásögn Ara fróða í Landnámu um gróðurfar landsins og það gleymdist honum ekki. Hann naut skilnings föður síns, Indriða Þorkelssonar, einnig naut hann aðstoðar bræðra sinna. Undanfari friðunarinnar var að stugga við fé af kjarrblettunum, en í þá sótti ókunnugt fé. Girðing kom á suðurmerkjum árið 1915, en síðar var hlaðinn grjótgarður neðan við fjallið.

Alfriðunin 1926 var mikil framkvæmd, sem var þökkuð þeim Stefáni Kristjánssyni skógarverði á Vöglum og Kofoed-Hansen, þáverandi skógræktarstjóra ríkisins. Tilgangur friðunarinnar var einkum sá að vernda skógarkjarrið og gefa því skilyrði til vaxtar og viðhalds.

Landið er bratt og viðkvæmt fyrir skriðuföllum

Indriði segir að töluvert miklu hafi verið plantað af sígrænum trjám, en það hafi ekki verið skipulagt frá upphafi, heldur af handahófi fyrst um sinn og þá reynt að velja bestu staði. Það var ekki fyrr en síðar sem sett var í samfelld svæði. Norðmenn komu og gróðursettu stafafuru, en fyrstu barrplönturnar komu frá Hallormsstað árið 1939 og voru það 9 lerki, tvær furur og um 20 greni. Mest var gróðursett á árunum 1947 til 1969.

Indriði segir að í sínu minni hafi fallið ein skriða í hlíðinni, en það var árið 1947 þ.e. í ágústmánuði í miklum stórrigningum. Í sama veðri féllu miklar skriður í Dalsmynni og barst þá trjáviður í Fnjóská og allt út á Eyjafjörð. Faðir hans sagði að þá hefði hann ekki þorað að ganga um hlíðina af ótta við fleiri skriðuföll.

Mikið verk að grisja í stórri hlíð

Það hafa ekki verið áberandi óþrif í skóginum nú allra síðustu árin, en grenilús hefur aðeins gert vart við sig, en ekki gert áberandi usla. Indriði segir að það sé mjög mikilvægt að grisja og þannig verði skóglendið greiðfært og á þann hátt fáist sem mestar nytjar. Það er mikið verk í stórri hlíð að grisja og segir Indriði, að hann komist ekki yfir það. Hins vegar hafi Ytra- Fjallsskógur ekki verið hugsaður sem nytjaskógur í upphafi. Hann hafi verið til landbóta, fegrunar og yndisauka.

Indriði er margfróður um skógrækt og hefur setið í stjórn Skógræktarfélags Suður-Þingeyinga í áratugi og unnið mikið og gott starf með félaginu. Hann segist nú hafa minnkað við sig á þeim vettvangi og segist nú einungis vera skoðunarmaður reikninga. Hann er bjartsýnn á skógrækt framtíðarinnar og Ytra-Fjallsskógur á örugglega eftir að vera prýði í dalnum um ókomin ár.