Úr villtum norðlenskum birkiskógi. Mynd: Pétur Halldórsson.
Úr villtum norðlenskum birkiskógi. Mynd: Pétur Halldórsson.

Endurbætt skóglendisvefsjá gefur auknar upplýsingar um skóglendi í sveitarfélögum

Viðamiklar upplýsingar um skóglendi lands­­ins má nú finna með hjálp nýuppfærðrar skóglendisvefsjár á vef Skógræktar ríkisins. Vefsjáin var áður í einu lagi en hefur nú verið skipt í þrennt og möguleikarnir auknir. Einkum er nú betur hægt að átta sig á skóglendi eftir sveitarfélögum landsins og upplýsingar eru ítarlegri.

Af forvitnilegum upplýsingum sem vefsjáin hefur að geyma má nefna að flatarmál ræktaðra skóga er mest á Suðurlandi. Þar er tæpur þriðjungur allra ræktaðra skóga á landinu. Hlutfall ræktaðra skóga af flatar­máli viðkomandi landshluta er þó hæst á Austurlandi en ef aðeins er litið til láglendis neðan 400 metra yfir sjó er heildarflatarmál skóglendis mest á Vesturlandi. Austurland hefur hins vegar hæsta hlutfall landshlutanna af ræktuðum skógi á láglendi.

Mesta flatarmál ræktaðs skógar í einstöku sveitarfélagi er á Fljótsdalshéraði enda eru innan þess sveitarfélags þrettán prósent allra ræktaðra skóga landsins. Hæsta hlutfall skógarþekju af heildarflatarmáli einstakra sveitarfélaga er hins vegar í Garðabæ. Tæpur þriðjungur af flatarmáli sveitarfélagsins neðan 400 m er þakinn skógi og kjarri.


Á árunum 2010-2014 var birki á Íslandi endurkortlagt og liggur nú fyrir hversu mikil útbreiðsla náttúrlegs birkis er á Íslandi. Þekja sem sýnir útbreiðslu ræktaðs skóglendis á landinu er uppfærð árlega. Einnig bætast upplýsingar um nýgróðursetningar við þekjuna á hverju ári. Gerð var landfræðileg greining á útbreiðslu skóglendis fyrir hvern lands­­hluta og öll sveitarfélög á landinu. Skoðað var heildarflatarmál bæði ræktaðra skóga og náttúrlegs birkiskóglendis. Þar með fékkst samanlögð þekja alls skóglendis en einnig var litið sérstaklega á flatarmál og hlutfall skóglendis neðan 400m. Þetta var gert bæði fyrir hvern landshluta og hvert sveitarfélag.

Til að fara beint í skóglendisvefsjána má smella á eftirfarandi hlekk en hér fyrir neðan er einnig ítarlegri samantekt með töflum sem sýna ýmsar áhugaverðar staðreyndir um skóga landsins.

Skógar Íslands eftir sveitarfélögum og landshlutum

Flatarmál ræktaðra skóga mest á Suðurlandi

Eins og sjá má á 1. töflu reyndist flatarmál ræktaðra skóga vera mest á Suðurlandi. Þar er tæpur þriðjungur allra ræktaðra skóga á Íslandi. Flatarmál ræktaðra skóga er nokkuð svipað á Norðurlandi, Vesturlandi og Austurlandi en minnst á Vestfjörðum. Athyglisvert er að sjá einnig að þekja birkis skiptist nokkuð jafnt á milli fjögurra landshluta, Vesturlands, Suðurlands, Vestfjarða og Norðurlands, eins og sést á 2. töflu.. Þekjan var nokkru minni á Austurlandi.

Múlakot

1. tafla

Flatarmál skógræktar eftir landshlutum

Flatarmál (ha) Hlutfall (%)
Suðurland 16.000 31%
Norðurland 11.730 23%
Vesturland 10.750 21%
Austurland 10.390 20%
Vestfirðir 2.330 5%
Alls flatarmál 51.190












2. tafla

Flatarmál birkis eftir landshlutum

Flatarmál (ha) Hlutfall (%)
Vesturland 39.110 26%
Suðurland 34.170 23%
Vestfirðir 30.890 20%
Norðurland 28.740 19%
Austurland 18.630 12%
Alls flatarmál 151.540

Á 3. töflu má sjá að heildarflatarmál skóglendis á Íslandi var mest á Suðurlandi en litlu minna á Vesturlandi. Í þessum landshlutum var samanlagt um helmingur alls skóglendis á Íslandi. Minnst var heildarflatarmál skóglendis á Austur­landi.

3. tafla

Flatarmál skóglendis eftir landshlutum

Flatarmál (ha) Hlutfall (%)
Suðurland 50.170 25%
Vesturland 49.850 25%
Norðurland 40.470 20%
Vestfirðir 33.220 16%
Austurland 29.020 14%
Alls flatarmál 202.730

Hlutfall skóglendis af flatarmáli landshluta neðan 400 m

Íslendingar hafa undanfarna áratugi stefnt að því að þekja 5% láglendis skógi þótt hægar gangi en vonast var til í fyrstu. Ef reiknað er hlutfall ræktaðra skóga af flatarmáli lands neðan 400 m í einstökum landshlutum kemur í ljós að hlutfallið er hæst á Austurlandi. Þar reynast 2,3% lands neðan 400 m vera þakin ræktuðum skógum eins og sést í 4. töflu. Hlutfallið var mjög svipað á Vesturlandi og Suðurlandi, en lægst á Norðurlandi og Vestfjörðum.

4. tafla


Hlutfall ræktaðra skóga neðan 400m
Austurland 2,3%
Vesturland 1,5%
Suðurland 1,3%
Norðurland 0,9%
Vestfirðir 0,4%

Birki var hlutfallslega útbreiddast á láglendi á Vesturlandi. Þar voru 5,6% lands neðan 400 m þakin náttúrlegum birki­skóg­um og birkikjarri eins og tafla 5 sýnir. Svipað hlutall var á Vestfjörðum en minnst var það á Norðurlandi.

5. tafla

Hlutfall birkis af flatarmáli landshluta neðan 400m eftir landshlutum

Hlutfall birkis neðan 400m
Vesturland 5,6%
Vestfirðir 5,4%
Austurland 4,1%
Suðurland 2,7%
Norðurland 2,2%

Hlutfall skóglendis af flatarmáli landshluta neðan 400 m var hæst á Vesturlandi, en þar voru rúm 7% lands neðan 400 m þakin ræktuðum skógum og náttúrlegu birki (6. tafla). Á Austurlandi og Vestfjörðum var hlutfallið nálægt 6% en minnst var það á Norðurlandi.

6. tafla

Hlutfall skóglendis af flatarmáli landshluta neðan 400m eftir landshlutum

Hlutfall skóglendis neðan 400m
Vesturland 7,1%
Austurland 6,5%
Vestfirðir 5,8%
Suðurland 4,0%
Norðurland 3,2%

13% ræktaðra skóga landsins eru á Fljótsdalshéraði

Ef litið er á sveitarfélögin hvert og eitt kemur í ljós að mest flatarmál ræktaðra skóga er á Fljótsdalshéraði. Þar voru samkvæmt mælingunum 13% allra ræktaðra skóga á Íslandi. Það er um tvöfalt meira en í því sveitarfélagi sem næst kemur, Rangárþingi ytra (7. tafla).

7.  tafla

Flatarmál skógræktar eftir sveitarfélögum

Heildarflatarmál skógræktar Hlutfall af ræktuðu skóglendi
Fljótsdalshérað 6.900 13%
Rangárþing ytra 3.690 7%
Grímsnes- og Grafningshreppur 2.780 5%
Borgarbyggð 2.410 5%
Þingeyjarsveit 2.300 4%
Reykjavíkurborg 2.100 4%
Skeiða- og Gnúpverjahreppur 2.040 4%
Rangárþing eystra 2.000 4%
Bláskógabyggð 1.920 4%
Norðurþing 1.830 4%

Mest flatarmál náttúrlegs birkis var í Borgarbyggð, en þar voru 15% alls birkis á Íslandi. Það er nær tvöfalt meira en í Þingeyjarsveit þar sem flatarmál náttúrlegs birkis var næstmest (8. tafla). Borgarbyggð hefur einnig vinninginn ef lagt er saman allt skóglendi, villt og ræktað, eins og sjá má á töflu 9. Innan marka Borgarbyggðar reyndust 12% lands vera þakin skóglendi en það sveitarfélag sem næst kemur Borgarbyggð er Fljótsdalshérað með 7%.

8. tafla

Flatarmál náttúrlegs birkis eftir sveitarfélögum

Heildarflatarmál birkis Hlutfall af skóglendi á Íslandi
Borgarbyggð 22.060 15%
Þingeyjarsveit 11.760 8%
Bláskógabyggð 11.230 7%
Skútustaðahreppur 9.590 6%
Norðurþing 9.590 6%
Vesturbyggð 9.100 6%
Reykhólahreppur 9.070 6%
Sveitarfélagið Hornafjörður 8.410 6%
Fljótsdalshérað 7.680 5%
Dalabyggð 5.920 4%

Í Jafnaskarðsskógi.

9. tafla

Flatarmál skóglendis eftir sveitarfélögum

Heildarflatarmál skóglendis
Borgarbyggð 24.470
Fljótsdalshérað 14.590
Þingeyjarsveit 14.070
Bláskógabyggð 13.150
Norðurþing 11.410
Skútustaðahreppur 10.380
Vesturbyggð 9.350
Reykhólahreppur 9.330
Sveitarfélagið Hornafjörður 9.180
Dalabyggð 7.590

6 sveitarfélög með meira en 5% þekju neðan 400 m

Forvitnilegt er líka að huga að því hvaða sveitarfélög eru komin lengst í átt til markmiðsins um 5% skógarþekju á láglendi. Hlutfall ræktaðra skóga af láglendisflatarmáli sveitarfélags reyndist vera mest í Fljótsdalshreppi. Þar voru rúm 10% lands neðan 400 m þakin ræktuðum skógum í mælingunum (10. tafla). Alls reyndust 6 sveitarfélög hafa meira en 5% skógarþekju neðan 400 m.

10. tafla

Hlutfall skógræktar af flatarmáli sveitarfélags neðan 400m

Hlutfall skógræktar neðan 400m
Fljótsdalshreppur 10,3%
Reykjavíkurborg 9,4%
Akureyrarkaupstaður 9,4%
Garðabær 7,9%
Svalbarðsstrandarhreppur 5,6%
Hafnarfjarðarkaupstaður 5,0%
Hveragerðisbær 4,5%
Grímsnes- og Grafningshreppur 4,4%
Fljótsdalshérað 4,3%
Skeiða- og Gnúpverjahreppur 4,0%

Garðabær skóglendasta sveitarfélagið

Hlutfall náttúrlegs birkis af flatarmáli sveitarfélags var mest í Garðabæ, rúm 23% og tæp 20% í Hafnarfirði (11. tafla). Alls voru 5 sveitarfélög með yfir 10% þekju birkiskóglendis neðan 400 m.

Hlutfall alls skóglendis af flatarmáli sveitarfélags var líka mest í Garðabæ. Tæpur þriðjungur af flatarmáli sveitar­félags­ins neðan 400 m var þakinn skógi og kjarri, en um fjórðungur í Hafnarfirði (12. tafla).

11. tafla

Hlutfall náttúrlegs birkis af flatarmáli sveitarfélags neðan 400m

Hlutfall birkis neðan 400m
Garðabær 23,1%
Hafnarfjarðarkaupstaður 19,8%
Reykhólahreppur 13,1%
Súðavíkurhreppur 12,6%
Breiðdalshreppur 11,2%
Skorradalshreppur 9,8%
Grýtubakkahreppur 9,5%
Vesturbyggð 9,4%
Bláskógabyggð 9,3%
Hvalfjarðarsveit 8,2%

12. tafla

Hlutfall skóglendis af flatarmáli sveitarfélags neðan 400m

Hlutfall skóglendis neðan 400m
Garðabær 31,1%
Hafnarfjarðarkaupstaður 24,8%
Fljótsdalshreppur 14,7%
Skorradalshreppur 13,7%
Reykhólahreppur 13,5%
Súðavíkurhreppur 13,0%
Breiðdalshreppur 12,5%
Reykjavíkurborg 12,4%
Hvalfjarðarsveit 11,0%
Bláskógabyggð 10,9%

 

Texti: Pétur Halldórsson
Heimild og töflugerð: Björn Traustason