Taílendingar hyggjast stórauka skóggræðslu í landi sínu og rækta upp skóglendi á stórum svæðum þar sem náttúrlegum skógum hefur verið eytt. Eitt beittasta vopnið í þeirri baráttu verða fræbombur sem varpað verður úr flugvélum í milljónatali. Gert er ráð fyrir að árangurinn af slíkum lofthernaði verði um 70%
Skógardagurinn mikli verður með hefðbundnu sniði í ár, fjölbreyttur og skemmtilegur að vanda með mat og drykk, skemmtiatriðum, keppnum og fleiru og fleiru. Ýmislegt verður í boði fyrir börnin, tónlistar- og skemmtiatriði flutt á sviði, Íslandsmeistarakeppnin í skógarhöggi haldin og að venju heilgrillað naut af Héraði, austfirskt lambakjöt, pylsur, ketilkaffi og lummur og fleira. Dagskráin verður nánar kynnt í byrjun júní.
Gönguleiðin um Fimmvörðuháls og Laugaveginn er meðal tuttugu leiða sem nafntogað útivistarfólk útnefndi bestu gönguleiðir heims fyrir bandaríska landfræðitímaritið National Geographic. Skógurinn á Þórsmörk er þjóðskógur. Honum var bjargað fyrir rúmum 80 árum þegar Skógrækt ríkisins tók að sér að friða hann, auka útbreiðslu hans á ný og hlúa að svæðinu.
Fjallað er um asparglyttu, kal í kjölfar asparryðs og fleira sem snertir heilsufar trjágróðurs á Íslandi í nýútkomnu Ársriti Skógræktar ríkisins 2015. Fyrirhuguð sameining skógræktarstofnana kemur einnig við sögu, tilraunir og rannsóknir í skógrækt, aðstaða í þjóðskógunum og skjótur árangur í skógrækt á auðnum, bæði sunnan- og norðanlands ásamt ýmsu fleiru.
Börkur lerkitrjáa brennur illa og lerkitré hafa verið notuð með fram lestarteinum í Svíþjóð til að minnka hættuna á gróðureldum vegna neistaflugs frá teinunum. Sömuleiðis brenna mörg lauftré illa og í Umeå í Svíþjóð var mikið gróðursett af hengibjörk til eldvarna eftir að borgin brann síðla á 19. öld. Skógar eru ekki eldfimari en annað gróðurlendi en brennanlegur lífmassi er þó meiri í skógum en utan þeirra og nauðsynlegt að huga að eldvörnum. Þetta er meðal þess sem kom fram í fróðlegu viðtali við Aðalstein Sigurgeirsson, forstöðumann Rannsóknarstöðvar skógrækar, Mógilsá, í þættinum Samfélaginu á Rás 1.