Í ætt barrtrjáa er að finna einhverjar stærstu, hávöxnustu og langlífustu lífverur jarðarinnar. Alþekkt eru risastóru rauðviðartrén í Kaliforníu, stærstu tré í heimi. En nú er svo komið að barrtrén þurfa hjálp. Í Skotlandi hefur verið tekið frá landsvæði þar sem meiningin er að verði griðastaður fyrir barrviðartegundir sem nú eru í útrýmingarhættu.
Nýlokið er á Selfossi alþjóðlegri ráðstefnu um loftslagsbreytingar og þróunarmöguleika skógarplantna. Þar var fjallað um loftslagsbreytingar og hvaða möguleika skógartré hafa til að þróast og laga sig að breytingunum. Í tengslum við ráðstefnuna stendur nú yfir tveggja daga námskeið eða vinnusmiðja um þessi málefni. Rætt var við Aðalstein Sigurgeirsson, forstöðumann á Mógilsá, í Samfélaginu á Rás 1 í dag.
Rannsókn sem fjallað er um í nýrri grein í vefritinu Icelandic Agricultural Sciences bendir til að orkuarðsemi lífrænna kúabúa á Íslandi sé meiri en hefðbundinna kúabúa. Önnur ný grein í ritinu fjallar um samfélög þráðorma í Surtsey hálfri öld eftir að eyjan myndaðist. Þráðormar gegna mikilvægu hlutverki í frumframvindu vistkerfa og rannsóknin er mikilvægt innlegg í grunnrannsóknir á jarðvegslífi á Íslandi. Slíkar rannsóknir eru fágætar hérlendis en tveir vísindamenn á sviði skógvísinda eru meðal höfunda greinarinnar.
Út er komin í vísindaritinu Forest Ecology and Management ný yfirlitsgrein þar sem fjallað er um áhrif þess á vistkerfi skóga þegar ekki eingöngu trjábolurinn er tekinn út úr skóginum við skógarhögg heldur allur standandi lífmassi trésins. Í greininni er rætt um hvernig þetta hefur áhrif á jarðvegskolefni og vaxtarhraða skóga, til dæmis eftir grisjun á miðri vaxtarlotu, en jafnframt hugað að því hver áhrifin verða á næstu kynslóð trjáa, nýgræðinginn sem vex upp eftir lokahögg. Greinarhöfundar segja brýnt að afla betri þekkingar á þessu með langtímarannsóknum.
Útilt er fyrir að skóglendi sem samanlagt samsvarar stærð Indlands hverfi af yfirborði jarðar fyrir miðja öldina ef mannkyn snýr ekki af þeirri braut skógareyðingar sem fetuð hefur verið. Sú hugmynd er reifuð að ríku löndin greiði löndum hitabeltisins fyrir að vernda skóga sína og það sé ódýrari leið en ýmsar aðrar í baráttunni við loftslagsbreytingarnar. Ákveðin upphæð verði greidd fyrir hvert kolefnistonn.