Apahrellir, Araucaria araucana, er sérstætt tré og talið meðal elstu trjátegunda sem enn þrífast á j…
Apahrellir, Araucaria araucana, er sérstætt tré og talið meðal elstu trjátegunda sem enn þrífast á jörðinni. En hún er einnig ein af þeim sem eru í útrýmingarhættu í heimkynnum sínum. Tegundin vex villt í Síle og Argentínu. Mynd: Wikimedia Commons/Rokfaith

Barrviðartegundum bjargað frá útrýmingu

Í ætt barrtrjáa er að finna einhverjar stærstu, hávöxnustu og langlífustu lífverur jarðarinnar. Alþekkt eru risastóru rauðviðartrén í Kaliforníu, stærstu tré í heimi. En nú er svo komið að barrtrén þurfa hjálp. Í Skotlandi hefur verið tekið frá landsvæði þar sem meiningin er að verði griðastaður fyrir barrviðartegundir sem nú eru í útrýmingarhættu. Verkefnið kallast iCONic sem stendur fyrir Internationally threatened CONifers In our Care.

Í kjölfar ráðstefnu og sumarnámskeiðs um flutning trjátegunda á tímum loftslagsbreytinga, sem nýlokið er á Selfossi og sagt var frá hér á skogur.is, er áhugavert að huga að verkefnum sem unnið er að á þessu sviði eða skyldum. Það er óttaleg staðreynd að meira en þriðjungur, jafnvel allt að helmingur þeirra ríflega 650 barrviðartegunda sem þekktar eru á jörðinni er talinn vera í útrýmingarhættu í náttúrlegum heimkynnum sínum. Þessar tegundir eru ekki eingöngu verðmætar sem hluti af tegundafjölbreytni jarðar heldur eru barrtré mjög mikilvægur hópur plantna fyrir okkur mennina. Af mörgum tegundanna má hafa ýmiss konar nytjar, bæði timburnytjar en líka lífvirk efni sem notuð eru í lyf og margt fleira. Stórir barrskógar eru sömuleiðis mikilvægar kolefnisgeymslur sem verður æ mikilvægara eftir því sem meira er losað út í andrúmsloftið af koltvísýringi.

Forsvarsmenn iCONic-verkefnisins telja að ef ekki verður brugðist við skjótt sé mjög hætt við að margar tegundir barrviða hverfi fyrir fullt og allt. Biðlað er til almennings um hjálp til að bjarga þessum tegundum og tryggja að komandi kynslóðir geti notið þeirrar þjónustu og þeirra afurða sem þau hafa að gefa en einnig að þessi merkilegi hluti líffjölbreytni jarðarinnar heyri ekki sögunni til.

Í kynningarmyndbandi um iCONic-verkefnið bendir Charlie Taylor, skógarvörður Taft-umdæmis hjá skosku ríkisskógræktinni, á þrennt sem eigi stóran þátt í að þessi ógn steðjar nú að mörgum tegundum barrtrjáa, þ.e. ósjálfbært skógarhögg, minnkandi kjörlendi og loftslagsbreytingar. Martin Gardner, sem hefur umsjón með alþjóðlegu barrverndarverkefni, International Conifer Conservation Programme, bendir líka á að ýmis óværa eigi þarna hlut að máli, sjúkdómar, skordýraplágur og aðrir skaðvaldar. Í Norður-Ameríku séu dæmi um að heilu tegundirnar hafi þurrkast út úr tilteknum ríkjum á tiltölulega stuttum tíma.

Í Skotlandi byggja menn á langri hefð því fyrir tvö hundruð árum fóru plöntusafnarar eins og grasafræðingarnir David Douglas og Archibald Menzies um heiminn og söfnuðu tegundum sem þeir fluttu með sér heim til Perthshire í Skotlandi. Á arfleifð þeirra hefur byggst sú mikla skógræktarhefð sem skapast hefur á þeim slóðum. Charlie Taylor segir að líklega sé hvergi í Evrópu að finna fjölbreyttara úrval trjátegunda en í Perthshire enda sé þar talað um land hinna stóru trjáa, „Big Tree Country“.

Serbíugreni, Picea omorika, er ein þeirra tegunda sem eru taldar í útrýmingarhættu í heimkynnum sínum á Balkanskaga. Þessi tré eru vinsæl í görðum víða enda hafa þau skemmtilegt vaxtarlag. Mynd: Wikimedia Commons/sr:Корисник:Goldfinger.">

Skammstöfunin iCONic stendur sem fyrr er greint fyrir„Internationally threatened CONifers In our Care“ sem mætti þýða sem verndun okkar á barrviðum í útrýmingarhættu um allan heim. Markmiðið er að safna saman þeim barrviðartegundum sem eru í mestri útrýmingarhættu, koma þeim upp af fræi og gróðursetja í „landi hinna stóru trjáa“ til varðveislu. Á þessum slóðum eru mjög góðar aðstæður fyrir margar barrviðartegundir og þarna gætu þær fengið varanlegt hæli ef svo fer að þær hverfi alveg á heimaslóðum sínum.

Martin Gardner segir að fræjum sé safnað í heimkynnum tegundanna og þeim sáð í bækistöðvum The Royal Botanic Gardens í Edinborg. Þegar trén eru tilbúin til útplöntunar er hverri tegund fundinn öruggur staður í Perthshire þar sem talið er að aðstæður séu henni sem hentugastar.

Áhersla er lögð á mjög sjaldgæfar barrviðartegundir og segir Charlie Taylor að í Perthshire séu bæði mjög ákjósanlegar aðstæður og löng reynsla af starfi sem þessu. Vonast er til að eftir 5-10 ár verði búið að gróðursetja 5-7 þúsund tré af að minnsta kosti tuttugu tegundum sem eru í útrýmingarhættu. Þar á meðal eru tegundir eins og serbíugreni (Picea omorika) sem vex á Balkanskaga og apahrellir sem á sér náttúrleg heimkynni í Síle og Argentínu (Araucaria araucana).

Þar sem yfirvofandi loftslagsbreytingum fylgir sú hætta að fleiri og fleiri trjátegundir verði í útrýmingarhættu er gott að vita af verkefnum sem þessu þar sem menn afla reynslu og þekkingar sem nýta má vítt og breitt um heiminn til að koma upp trjáverndarsvæðum og endurhæfa skógarvistkerfi í stað þeirra sem glatast.

Nánar er hægt að grúska í iCONic-verkefninu á vefsíðu þess og þar gefst líka tækifæri til að styðja þetta verkefni með fjárframlögum. Óhætt er að að segja að hér gæti verið kominn áhugaverður staður fyrir skógræktarfólk til að heimsækja svo ekki sé fastar að orði kveðið.

Myndband um iCONic-verkefnið

Texti: Pétur Halldórsson